Mynd: Hörður Kristinsson
Kattarjurt (Rorippa islandica)
Útbreiðsla
Fremur sjaldgæf, finnst einkum um landið norðanvert (Hörður Kristinsson - floraislands.is).
Búsvæði
Tjarnastæði, tjarnarbakkar, lækjarfarvegir, rakar áreyrar og flæðarmál stöðuvatna (Hörður Kristinsson 1998 og floraislands.is).
Lýsing
Lágvaxin planta (3–20 sm) með mjög breytilega blaðlögun og örsmá, fjórdeild, gul blóm í klösum. Blómgast í júlí.
Blað
Blöðin 1–4 sm á lengd, afar breytileg að gerð, fjaðurflipótt eða fjaðurskipt, einkum neðan til. Smáblöðin tennt eða sepótt, endasmáblaðið oft áberandi stærra en hin (Hörður Kristinsson 1998).
Blóm
Blómin standa í klasa, örsmá, fjórdeild. Krónublöðin gul, mjó, spaða- eða tungulaga, innan við 2 mm á lengd. Bikarblöðin heldur styttri, bleikleit eða grænfjólublá, himurend. Fræflar sex. Frævan ein, um 1 mm á lengd í blóminu (Hörður Kristinsson 1998).
Aldin
Sívalur, eilítið boginn skálpur, 7–10 mm á lengd og 2–2,5 mm á breidd. Stilkurinn helmingi styttri eða miklu styttri en skálpurinn (Hörður Kristinsson 1998).
Greining
Líkist engri annarri íslenskri tegund.
Útbreiðsla: Kattarjurt (Rorippa islandica)
Höfundur
Var efnið hjálplegt?
Aftur upp