Selir

Alls hefur orðið vart sex tegunda eiginlegra sela, auk rostungs, við Íslandsstrendur. Landselur (Phoca vitulina) og útselur (Halichoerus grypus) eru einu selirnir sem halda til við strendur Íslands árið um kring. Aðrar tegundir sela eru misreglulegir flækings- eða farselir: blöðruselur (Cystophora cristata), vöðuselur (Pagophilis groenlandicus), hringanóri (Pusa hispida hispida), kampselur (Erignathus barbatus) og rostungur (Odobenus rosmarus).

Hér á landi hefur verið fylgst nokkuð reglulega með breytingum á stofnstærð landsels með talningum síðan 1980, og útsels síðan 1982. Landselir hafa verið taldir í látrum miðsumars, þegar þeir hafa feldskipti, en útselir að hausti um kæpingartímann. Selalátur eru svæði við ströndina þar sem selir kæpa, sinna kópauppeldi, hafa feldskipti og leita hvíldar. Þau eru mikilvæg fyrir verndun og viðgang tegundarinnar, enda halda selir tryggð við sömu látrin ár eftir ár. Talningagögn á selum undanfarna áratugi eru grunnur að heildstæðri kortlagningu látra við strendur Íslands.

Selir eru metnir á válista spendýra. Landselur er metinn sem tegund í hættu og útselur sem tegund í nokkurri hættu. Hvorug tegundin er á Evrópuválista eða á Heimsválista. Aðrar selategundir eru ekki á íslenskum válista.

Fjölrit Náttúrufræðistofnunar nr. 56, Selalátur við strendur Íslands (pdf).

Selalátur við strendur Íslands (kortasjá).