Válistar og friðun

Válisti er skrá yfir lífverur sem eiga undir högg að sækja, eru í útrýmingarhættu eða hefur verið útrýmt. Við gerð válista er stuðst við viðmið Alþjóðanáttúruverndarsambandsins, IUCN, en það gerir kröfur um nokkuð nákvæma vitneskju um útbreiðslu tegunda, fjölda einstaklinga og stofnstærðarbreytingar.

Náttúrufræðistofnun Íslands tekur saman Válista yfir lífríki landsins. Á Válista fugla 2018 er fjallað um 91 fuglategund sem er metin. Þeim er raðað í átta hættuflokka. Þar af er 41 tegund á válista. Á Válista spendýra 2018 er fjallað um 18 tegundir spendýra sem eru metnar. Þeim er raðað í sex hættuflokka. Þar af eru fimm tegundir á válista.

Allir fuglar og landspendýr falla undir lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum nr. 64/1994, með undanþágum.