Aldurssamsetning rjúpna á veiðitíma 2006

14.11.2006
Náttúrufræðistofnun hvetur rjúpnaskyttur til að klippa annan vænginn af rjúpum sem þeir veiða og senda stofnuninni. Af vængjunum má ráða hvort um er að ræða fugl á fyrsta ári eða eldri fugl. Fuglum af sama veiðisvæði eða úr sömu sveit þarf að halda saman í poka þannig að hægt sé að sundurgreina sýnin eftir landshlutum.


Unnið við rannsóknir.
Niðurstöður eru birtar jafnóðum hér á vef NÍ en þær verða meðal annars notaðar við mat á stofnstærð rjúpunnar í landinu.

Fyrstu niðurstöður frá veiðitíma 2006

8. desember 2006
Samtals er búið að aldursgreina 1274 fugla og hlutfall ungfugla af heildinni er 70%. Aldurshlutföllin eru breytileg eftir landshlutum. Hlutfall ungfugla er langsamlega lægst á Vesturlandi (45%) og virðist hafa orðið viðkomubrestur þar sumarið 2006. Einnig er hlutfall ungfugla lágt víðast hvar (61 til 70%) nema á Norðausturlandi og Austurlandi en þar er það 85% og 79%. Hliðstæður munur á hlutfalli ungfugla á milli landshluta var á veiðitíma 2005 en þá var hlutfall unga hæst á Suðvesturlandi og Vesturlandi en mun lægra í öðrum landshlutum. Vorið 2006 sýndu talningar að rjúpum hafði fækkað um allt land. Almennt hefur gilt að í uppsveifluárum er hlutfall ungfugla í hauststofni um 80%. Miðað við aldurshlutföll líkt og þau eru í hauststofninum í ár og atburðarásin í fyrra þá gera ráð fyrir að fækkun sem hafin var vorið 2006 muni halda áfram 2007.

Veiðitími 2006 8. desember 2006
Landshluti Fullorðnir Ungar Samtals % ungar
Suðvesturland     31     62      93    67%
Vesturland     95     78     173    45%
Vestfirðir     72    135     207    65%
Norðvesturland     57     91     148    61%
Norðausturland     64   350     414    85%
Austurland     23     87     110    79%
Suðurland     39     90     129    70%
Samtals     381     893    1274     70%


Sendið vængina til NÍ
Sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar hafa um áratuga skeið rannsakað aldurshlutföll í rjúpnaafla. Á lit flugfjaðra rjúpunnar er hægt að greina á milli tveggja aldurshópa, fugla á fyrsta ári og eldri fugla. Þessi gögn eru m.a. notuð til að reikna út heildarstofnstærð rjúpunnar í landinu. Veiðimenn, sem tilbúnir eru að taka þátt í þessari könnun, eru beðnir um að klippa annan vænginn af öllum þeim rjúpum sem þeir fella. Fuglum af sama veiðisvæði eða úr sömu sveit ber að halda sér í poka þannig að hægt sé að sundurgreina sýnin eftir landshlutum.

Vængina á að senda til

Náttúrufræðistofnun Íslands
Pósthólf 5320
125 Reykjavík


Stofnunin mun greiða sendingarkostnað sé þess óskað. Menn eru beðnir um að láta nafn sitt og heimilisfang fylgja með sýnum þannig að hægt sé að senda þeim, sem það vilja, niðurstöður greininga úr þeirra sýni og heildarniðurstöðurnar í lokin.

Litur flugfjaðra segir til um aldur

Unnið við rannsóknir.

Til að aldursgreina rjúpur bera menn saman lit á flugfjöður nr. 2 og flugfjöður nr. 3 (talið utan frá). Fjaðurstafurinn sjálfur er alltaf dökkur hjá íslenskum rjúpum óháð aldri, en við erum að bera saman litinn á föninni sjálfri, ekki fjaðurstafnum. Hjá fuglum á 1. ári er flugfjöður nr. 2 dekkri en nr. 3 eins og hér sést. Ef smellt er á myndina hér til vinstri, sést samanburðurinn. Hjá fullorðnum fuglum, fuglum á 2. ári og eldri, eru fjaðrir nr. 2 og 3 jafndökkar eða nr. 3 dekkri. Hjá sumum fullorðnum fuglum eru engin litarefni í fönum flugfjaðra nr. 2 og 3.