Frjóríkasta sumarið í Reykjavík

14.11.2006
Frjómælingum er lokið í ár og nú liggur fyrir uppgjör ársins. Birkitíminn var um margt óvenjulegur og hófst snemma með sendingu frá Austur–Evrópu, þegar hlýr loftmassi náði hingað til lands hlaðinn frjókornum, sem ættuð voru úr skógum meginlandsins. Í tvo daga, 9. og 10. maí, mældust í Reykjavík fleiri frjó en yfir heilt tímabil í meðalári.

Heildarfjöldi birkifrjóa hefur aldrei orðið jafnmikill á einu tímabili eða um 2500.
Sumarið 2006 reyndist þannig þriðja frjóríkasta sumarið í Reykjavík frá því mælingar hófust 1988. Á Akureyri hafa hins vegar aðein tvö sumur, 1999 og 2001, verið með færri frjókorn. Þar sem gagnasöfnun misfórst nokkra daga í ágúst, einmitt þegar grasfrjó eru oft hvað flest á ferðinni sýnir heildarfjöldinn lágmarkstölu fyrir Akureyri í ár.

Birkifrjógusa frá Evrópu í byrjun maí

Frjómælingum er lokið í ár og nú liggur fyrir uppgjör ársins. Í ár var birkitíminn um margt óvenjulegur. Hann hófst snemma með sendingu frá Austur–Evrópu, þegar hlýr loftmassi náði hingað til lands hlaðinn frjókornum, sem ættuð voru úr skógum meginlandsins. Í tvo daga, 9. og 10. maí, mældust í Reykjavík fleiri frjó en yfir heilt tímabil í meðalári. Það magn dreifist venjulega á 2-3 vikur, sem er algengasta lengd á birkitímabili í Reykjavík. Birki á suðvesturlandi blómgaðist síðan upp úr miðjum maí og birkifrjó mældust fram í miðjan júní. Þannig varð sá tími sem birkifrjó voru í lofti í ár mun lengri en áður. Heildarfjöldi birkifrjóa hefur aldrei orðið jafnmikill á einu tímabili eða um 2500. Á Akureyri blómgaðist birkið mun seinna en syðra eða ekki fyrr en undir mánaðamót maí og júní, enda vorið kalt fyrir norðan. Birkitíminn á Akureyri stóð yfir í rúmar tvær vikur.

Mildari grastími

Grastíminn reyndist með vægara móti á báðum mælistöðum. Tiltölulega fá grasfrjó mældust í júní og júlí, en ágúst varð aðalgrasmánuðurinn bæði í Reykjavík og á Akureyri. Kalt tíðarfar í apríl og maí gæti verið ástæðan fyrir því að grasspretta fór seinna af stað en undanfarin sumur og blómgun og frjókorn voru þar með seinna á ferðinni einnig. Grasfrjó voru í lofti fram eftir öllum september, enda hlýindi óvenjumikil í haust, þó urðu frjótölur aldrei háar.

Samantekt

Þegar upp er staðið reyndist þetta þriðja frjóríkasta sumarið í Reykjavík frá því mælingar hófust 1988. Í ár munar mestu um birkifrjóin. Á Akureyri hafa hins vegar tvö sumur, 1999 og 2001, verið með færri frjókorn. Þar ber þó að geta þess að gagnasöfnun misfórst hluta úr annarri viku ágústmánaðar, einmitt þegar grasfrjó eru oft hvað flest á ferðinni. Þannig sýnir heildarfjöldinn lágmarkstölu fyrir Akureyri í ár.