Miklar breytingar á lífríki Surtseyjar 2006

13.11.2006
Árlegur sumarleiðangur líffræðinga Náttúrufræðistofnunar til Surtseyjar var farinn dagana 17. - 20. júlí, 2006. Að þessu sinni voru gerðar mælingar á þekju gróðurs og tegundasamsetningu í föstum rannsóknareitum, en í þeim var einnig mæld ljóstillífun plantna og losun koltvísýrings úr jarðvegi.

Árlegur sumarleiðangur líffræðinga Náttúrufræðistofnunar til Surtseyjar var farinn dagana 17. - 20. júlí, 2006. Að þessu sinni voru gerðar mælingar á þekju gróðurs og tegundasamsetningu í föstum rannsóknareitum, en í þeim var einnig mæld ljóstillífun plantna og losun koltvísýrings úr jarðvegi. Viðgangur háplöntutegunda var kannaður og leitað að nýjum tegundum. Lokið var við að kortleggja og skrá útbreiðslu háplantna eftir 1 ha reitakerfi en tæp tíu ár eru síðan það var gert síðast. Fléttuflóra var könnuð með söfnun í föstum reitum og yfirferð um eyjuna. Í leiðangrinum var smádýrum safnað í fallgildrur í föstum rannsóknareitum og með háfun og leit vítt og breitt um eyjuna. Fuglalíf var kannað og gætur hafðar á ferðum sela og hvala.


Blóðberg, burnirót, blávingull og þúfusteinbrjótur nema land

Blómstrandi blóðberg, ný tegund í Surtsey. Ljósm: Erling Ólafsson, júlí 2006.

Í leiðangrinum fundust óvenjumargar nýjar tegundir háplantna í eynni. Tegundir sem nú komu í leitirnar voru blóðberg, þúfusteinbrjótur, burnirót og blávingull en að auki fannst blöðkutegund (Atriplex) sem ekki hefur enn verið greind til tegundar. Þessir nýju landnemar fundust allir í máfavarpinu á suðurhluta eyjarinnar þar sem gróður hefur dafnað vel á undanförnum árum og fjölbreytni er mest. Líklegt er að fuglar eigi þátt í flutningi þeirra til eyjarinnar. Fundur þessara planta kom ekki mjög á óvart en allar eru þær algengar í Vestmannaeyjum og á meginlandinu en vaxtarskilyrði eru orðin góð fyrir þær í Surtsey. Af blóðbergi fundust fimm vöxtulegar, blómstrandi plöntur og voru þær fremur dreifðar í máfavarpinu. Stærð og þroski plantnanna bendir til að þær hafi vaxið í eynni í nokkur ár en verið lítt áberandi þar til þær tóku að blómstra. Af þúfusteinbrjóti fundust nokkrar stórar blómstrandi plöntur á hraunkolli og fleiri smærri umhverfis sem sýnir að tegundin hefur borist til eyjarinnar fyrir nokkrum árum. Af burnirót og blávingli fannst ein planta af hvorri tegund. Burnirótin var fremur smávaxin og ekki tekin að blómstra en blávingulinn myndaði þéttan topp og var með blaðgróningum sem hann fjölgar sér með.
Í leiðangrinum fundust plöntur sem höfðu áður numið land í Surtsey en ekki náð þar fótfestu. Þetta voru maríustakkur sem fannst á tveimur stöðum og mýradúnurt sem fannst á einum stað. Þá fannst lífvænleg ætihvönn í máfavarpinu sem líklegt er að muni bera fræ innan fárra ára og dreifast um. Aðeins ein hvönn var fyrir í Surtsey en hún hefur hírst ofan í hraunsprungu um tíu ára skeið og aldrei náð að blómstra. Alls hafa 64 tegundir háplantna fundist í Surtsey frá því eyjan reis úr sæ. Í leiðangrinum fundust 56 þessara tegunda á lífi og hafa þær aldrei verið fleiri.

Miklar breytingar á útbreiðslu háplantna
Kortlagning á útbreiðslu háplantna sýnir að miklar breytingar hafa átt sér stað frá árinu 1996. Mestar breytingar hafa orðið í máfavarpinu þar sem tegundum hefur fjölgað um allt að helming á hverjum hektara lands. Þar finnast nú yfir 20 tegundir eða fleiri í sjö reitum (1 ha hver). Umhveris stóra hraungíginn á vesturhluta eyjarinnar hefur tegundum einnig fjölgað. Þar gætir ekki mikilla áhrifa af varpfugli og hefur framvinda verið hæg. Þar fundust nú mest 10 - 17 tegundir í reit. Tegundum fer þó ekki alls staðar fjölgandi. Á suðurhluta eyjarinnar þar sem ágangur sjávar er mestur og rofnar stöðug af eynni hefur tegundum farið fækkandi. Líklegt er að það stafi einkum af seltu og versnandi skilyrðum fyrir margar tegundir.

Fléttutegundum fjölgar
Fjölbreytni fléttna í Surtsey hefur aukist mikið frá því hún var könnuð síðast. Einkanlega hefur tegundum fjölgað þar sem áburðaráhrifa gætir frá varpfugli en einnig fundust nýjar tegundir á hraunum og móbergi utan varpsvæða. Meðal nýrra tegunda sem fundust voru fjórar tegundir af grámuætt:
fugla-, klappa- og strandgráma auk strandmóru. Einnig var safnað sýnum af hrúðurkenndum fléttum sem ekki hafa áður fundist á eynni og mun smásjárgreining leiða í ljós um hvaða tegundir er að ræða. Í Surtsey hafa nú fundist um 80 tegundir fléttna.

Smádýralíf færist í aukana
Fjölbreytni smádýra í Surtsey hefur aukist ár frá ári og athyglisvert er að sjá hvað útbreiðsla einstakra tegunda breytist eftir því sem aðstæður þar breytast. Hingað til hafa um 340 tegundir smádýra fundist í Surtsey. Nokkrar nýjar tegundir bar fyrir augu í leiðangrinum, m.a. mýflugutegundir af sveppamýsætt og fiðrildategund sem ekki hefur áður sést í eynni. Að auki sáust erlend fiðrildi, þistilfiðrildi og kálmölur, og gullglyrna sem er af ættbálki netvængja. Frekari niðurstöður liggja ekki fyrir þar sem greina þarf aflann í rannsóknastofu.

Fuglar
Fuglalíf í Surtsey virtist í svipuðu horfi og undanfarin ár. Mikið varp er af fýl, svartbak, sílamáf og silfurmáf og einnig verpa þar tugir para af teistu og ritu. Vart varð við nokkur pör af lunda í berginu á suðurhluta eyjarinnar en þar hóf hann að verpa fyrir tveimur árum. Í graslendi uppi á eynni sáust merki um að fuglar hefðu reynt að grafa þar holur í vor og er líklegt að þar hafi lundi verið á ferðinni. Af landfuglum hafa sólskríkja, maríuerla og þúfutittlingur verpt í Surtsey í sumar. Grágæs hefur verpt í eynni undanfarin ár en lítið varð vart við hana í leiðangrinum.
Óvenjumikið líf virtist vera í sjó við Surtsey meðan leiðangursmenn dvöldu þar en súlur voru þar í hundraðatali og stungu sér eftir æti rétt undan strönd. Mikill fjöldi háhyrninga var þar einnig í æti og mátti heyra blástur þeirra upp á eyju. Til fleiri smáhvela sást. Þótti leiðangursmönnum mikilfenglegt að fylgjast með súlunum stinga sér innan um blásandi hvalina.

Fyrstu samfelldu hitamælingar í Surtsey
Í leiðangri til Surtseyjar í júlí 2005 voru settir upp fjórir sjálfvirkir hitamælar sem skráð hafa á klukkustundarfresti lofthita í 30 cm hæð og jarðvegshita á 5 cm dýpi á fjórum misgrónum svæðum í jaðri máfavarpsins á suðurhluta eyjarinnar. Þessar mælingar eru gerðar í samvinnu við Hilo-háskólann á Hawaii sem lagði til mælitækin. Nú ári seinna voru gögn tæmd af mælunum og kom í ljós að þeir höfðu gengið snurðulaust frá því þeir voru settir upp þann 19. júlí 2005 en lesið var af þeim 17. júlí 2006. Þettu eru fyrstu samfelldu hitamælingar frá Surtsey sem ná yfir svo langt tímabil.
Fyrstu niðurstöður eru mjög athyglisverðar. Meðallofthiti í 30 cm hæð yfir mælitímabilið reyndist vera 6,5 ºC á vikurbornu landi með stjálum gróðri, en 6,2 ºC í þéttu melgresi. Hæst fór lofthiti á tímabilinu í 23,2 ºC, þann 23. júlí 2005, en lægstur varð hann - 7.3 ºC, þann 17. janúar 2006, eru það gögn frá vikurborna landinu. Á sólríkum sumardögum verður jarðvegshiti mjög hár í svörtum vikrinum og mældist hann þar mestur 38,8 ºC en hins vegar 24,8 ºC í melgresinu. Í vikrinum fór frost í jarðvegi niður í - 7,3 ºC yfir veturinn en það féll rétt niður fyrir frostmark í melgresinu, eða í - 0,2 ºC. Þessar niðurstöður sýna að miklar breytingar verða á hitaskilyrðum þegar gróður nemur land á ógrónu landi. Í leiðangrinum var yfirborðshiti mældur á sama svæði þann 19. júlí í sól og hlýju veðri. Þá mældist yfirborðshiti um hádegi 42,0 ºC á svörtum vikri en aðeins 16,2 ºC í melsgresinu. Hitamælingum verður haldið áfram í Surtsey.

Leiðangursmenn
Að þessu sinni tóku 9 manns í leiðangrinum til Surtseyjar en það voru þau Borgþór Magnússon, Erling Ólafsson, Hörður Kristinsson, María Ingimarsdóttir, Sigurður H. Magnússon og Starri Heiðmarsson frá Náttúrufræðistofnun, Bjarni Diðrik Sigurðsson frá Landbúnaðarháskóla Íslands, Sturla Friðriksson, og James Juvik prófessor í landafræði við Hawaii-háskóla á Hilo á Hawaii en hann hefur rannsakað framvindu og veðurfarsáhrif gróðurs á eldfjöllum á fjölmörgum eyjum í hitabeltinu.


MEIRA UM SURTSEY Á VEF NÍ