Rannsóknir á sjúkdómsvöldum í rjúpum

14.11.2006
Nýtt samvinnuverkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands, Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræðum og Reiknifræðistofu Háskóla Íslands á sviði rjúpnarannsókna hófst á haustdögum 2006. Í þessu nýja verkefni er ætlunin að rannsaka hlutverk sjúkdómsvalda, m.a. sníkjudýra, í stofnsveiflu íslensku rjúpunnar. Unnið verður á Norðausturlandi. Rannsaka á heilbrigði, líkamsástand og sjúkdómsvalda rjúpunnar yfir eina rjúpnasveiflu (um 10 ár), en fyrsti hluti rannsóknanna er hugsaður til þriggja ára. Sýna verður aflað einu sinni á ári, í október, og fyrsti leiðangurinn var farinn nú í haust.

Íslenski rjúpnastofninn er sveiflóttur að stærð og um 10 ár líða á milli hámarka. Hliðstæðar stofnsveiflur eru þekktar hjá ýmsum tegundum grasbíta á norðurslóðum, bæði spendýra, fugla og skordýra. Almennt er talið að aflvaki sveiflunnar sé innan fæðuvefsins, og að sveiflan endurspegli samspil grasbítsins og þeirra plantna sem hann lifir á, eða að orsakavaldurinn sé þrepi ofar í fæðuvefnum en grasbíturinn og þá annað hvort þau rándýr eða sníkjudýr og sóttkveikjur sem á hann herja. Sérfræðingar á Náttúrufræðistofnun Íslands hafa fengist við rjúpnarannsóknir um árabil og það er ætlunin að auka umfang þessara rjúpnarannsókna meðal annars með því að leita eftir samstarfi við sérfræðinga utan stofnunarinnar þar sem slíks er þörf. (Sjá skýrslu NÍ um aukið umfang rjúpnarannsókna). Hafist var handa við eitt slíkt verkefni nú á haustdögum og er það unnið í samstarfi við sérfræðinga á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og Reiknifræðistofu Háskólans.

Fiðurmaur á rjúpnavæng Fiðurmaur af ættkvíslinni Tatraolichus sem heldur sig milli fana á vængþökum rjúpunnar og lifir þar á fiðurprótínum. Maurarnir geta skipt þúsundum á hverri rjúpu. Á myndinni sjást karl- og kvenmaurar og lirfur á ýmsum þroskastigum milli fana upp við fjöðurstafinn. Stækkuð myndin sýnir fullvaxið kvendýr og má sjá egg í afturbol maursins. Ljósmyndir Karl Skírnisson.Sjúkdómsvaldar og líkamsástand

Í þessu nýja verkefni er ætlunin að rannsaka hlutverk sjúkdómsvalda, m.a. sníkjudýra, í stofnsveiflu íslensku rjúpunnar. Unnið verður á Norðausturlandi, en þar hafa farið fram umfangsmiklar rannsóknir á stofnvistfræði rjúpu frá 1981 og þær munu halda áfram og eru ein meginforsenda þeirra rannsókna sem hér eru kynntar. Rannsaka á heilbrigði, líkamsástand og sjúkdómsvalda rjúpunnar yfir eina rjúpnasveiflu (um 10 ár), en fyrsti hluti rannsóknanna er hugsaður til þriggja ára. Sýna verður aflað einu sinni á ári, í október. Í byrjun á að lýsa sníkjudýrafánu rjúpunnar, þ.e. fá á hreint greiningar sníkjudýra og samsetningu sníkjudýrafánu rjúpunnar sem og annarra sjúkdómsvalda. Einnig að velja og staðla aðferðir til að meta á magnbundin máta sjúkdómsvalda rjúpunnar. Einnig verður líkamsástand þessara fugla metið út frá þyngd, stærðarmálum og prótín- og fituinnihaldi. Meginspurningin er: hvert er hlutverk sníkjudýra og annarra sóttkveikja í stofnsveiflu rjúpunnar? Spurt er hvort þessir þættir hafi áhrif á líkamsástand rjúpna og þá hvort þeir breytist í takt við stofnsveiflu rjúpunnar en hnikað líkt og slíkir áhrifaþættir verða að gera. Fyrsta árið í þessum samanburði verður 2006 og það síðasta í fyrsta áfanga verkefnisins er árið 2009. Miðað við stöðu rjúpnastofnsins og fyrri reynslu munu þessi ár spanna síðustu ár uppsveiflu rjúpunnar og fyrsta árið eftir hámark.

Guðmundur A. Guðmundsson ásamt hundinum sínum, Dr. Finni, leita að rjúpum. Rjúpunum var safnað á Tjörnesi, Reykjaheiði, Gæsafjöllum, Búrfellshrauni og Mývatnsheiði. Ljósmynd Sólrún Þóra Þórarinsdóttir.Unnið við rannsóknir.

Leiðangur 1. til 7. október 2006
Fyrsti leiðangur vegna þessara rannsókna var farinn dagana 1. til 7. október. Samtals tóku 11 manns þátt í leiðangrinum; frá Náttúrufræðistofnun voru Guðmundur A. Guðmundsson, Finnur Logi Jóhannsson, Isabel Blázquez de Paz, Ólafur K. Nielsen og Þorvaldur Björnsson, frá Tilraunastöðinni á Keldum voru Karl Skírnisson, Ólöf Guðrún Sigurðardóttir og Sólrún Þóra Þórarinsdóttir, frá Reiknifræðistofu Háskóla Íslands Gunnar Stefánsson og frá Náttúrustofu Norðausturlands Aðalsteinn Snæþórsson og Þorkell Lindberg Þórarinsson. Fimm menn sáu um veiðarnar, en gert var ráð fyrir að safna 160 fuglum og það gekk eftir. Aðrir leiðangursmenn unnu við krufningar og mælingar á fuglunum á vinnustofum, bæði hjá Náttúrustofu Norðausturlands á Húsavík og á Rannsóknastöðinni við Mývatn á Skútustöðum. Um 100 fuglar (20 fullorðnir karlfuglar, 30 ungir, 20 fullorðnir kvenfuglar og 30 ungir) voru mældir og krufðir og sýni tekin úr þeim til rannsókna á sníkjudýrum og sóttkveikjum. Unnið er úr þessum efnivið á Tilraunstöðinni á Keldum í vetur. Um 60 fuglar voru mældir og settir í frost. Í vetur verða þeir krufðir á Náttúrufræðistofnun og prótín- og fituinnihald þeirra mælt.