Mikill vatnsleki í Náttúrugripasafninu

13.12.2006
Geirfuglinn umkringdur björgunarmönnumGeirfuglinn, einn verðmætasti safngripur Náttúrufræðistofnunar, virðist hafa sloppið við skemmdir í vatnsskaða sem varð í sýningarsölum stofnunarinnar í gær, þriðjudag. Tæring í röri í tækjaklefa leiddi til þess að nokkur hundruð lítrar af heitu vatni láku inn í sýningarsal á 4. hæð og niður á milli hæða inn í sýningarskápa á 3. hæð.

Þegar lekans varð vart á tólfta tímanum í skrifstofu við hlið sýningarsalarins var mikill loftraki í salnum og nokkurra sentimetra djúpt vatn á gólfi þar sem mest var. Slökkviliðið brást hratt við og hreinsaði allt vatn af gólfum og úr skápum á stuttum tíma. Nokkrar skemmdir urðu í skápum og gólfum en sýningargripir sluppu ótrúlega vel væntanlega vegna þess hversu fljótt lekinn uppgötvaðist. Sýningarsalirnir verða ekki opnaðir fyrr en á nýju ári.

Unnið við rannsóknir.
Þetta er annar vatnsskaðinn í húsnæði Náttúrufræðistofnunar á Hlemmi á stuttum tíma, en fyrir þremur vikum sprakk annað hitaveiturör í útvegg á 3. hæð hússins. Þá fór vatnið beina leið út um húsvegginn og niður á götu. Í sumar glötuðust yfir tvö þúsund sýni úr vísindasöfnum Náttúrufræðistofnunar þegar rafmagn var tekið af frystigeymslu sem stofnunin hafði á leigu í Gnoðarvogi og sýnunum fargað að stofnuninni forspurðri. Það mál er nú til rannsóknar hjá lögreglu.

Meira um geirfuglinn.