Sýning á steinasýnum Jónasar Hallgrímssonar

18.03.2007

Á þessu ári eru liðin 200 ár frá fæðingu Jónasar Hallgrímssonar og verður þess minnst með ýmsu móti. Á sýningu sem opnuð verður n.k. miðvikudag 21. mars í Amtsbóksafninu á Akureyri verður ekki aðeins staðnæmst við skáldið heldur einnig náttúrufræðinginn Jónas Hallgrímsson. Þar gefur m.a. að líta nokkur þeirra jarðfræðisýna sem Jónas safnaði á ferðum sínum um Ísland á árunum 1837–1842 og varðveitt eru í vísindasafni Náttúrufræðistofnunar Íslands og í Jarðfræðisafni Kaupmannahafnarháskóla.

Náttúrufræðingurinn Jónas

Björn G. Björnsson hönnuður og Sveinn Jakobsson, jarðfræðingur ganga frá jarðfræðisýnum Jónasar fyrir sýninguna nyrðra. Ljósm. ÁI.

Jónas Hallgrímsson lagði stund á náttúrufræði við Kaupmannahafnarháskóla og fór víða um landið í rannsóknaleiðangra á árunum 1837–1842. Ekki er vafi á því að hann öðlaðist betri þekkingu á náttúru landsins en nokkur annar náttúrufræðingur fram að þeim tíma. Þótt Jónas hefði vítt áhugasvið, lagði hann mesta áherslu á jarðfræðirannsóknir og safnaði allmiklu safni steina og steingervinga á ferðum sínum, líklega meir en 1200 steinasýnum. Flest öll sýnin sendi hann til Kaupmannahafnar. Í Jarðfræðisafni Kaupmannahafnarháskóla er að finna 430 steinasýni sem annað hvort eru merkt Jónasi eða líklegt er að hann hafi safnað.

Merkimiði með sýni nr. 246 frá Garðahrauni, safnað 24. júní 1841 skráð með hendi Jónasar Hallgrímssonar. Eitt 430 sýna sem varðveitt eru í Kaupmannahafnar-háskóla.

Fyrsta náttúrusýningin

Jónas hafði áhuga á að koma á fót opinberu íslensku steinasafni í Reykjavík og vann hann að því máli veturinn 1841–1842. Í fyrstu var þessu safni komið fyrir í „Svartholinu“ sem seinna varð Stjórnarráðshúsið, en síðan í Latínuskólanum þegar hann var fluttur til Reykjavíkur 1846. Af þessu safni eru nú til 18 steinasýni og eru þau varðveitt hjá Náttúrufræðistofnun Íslands í Reykjavík. Þau eru öll á sýningunni í Amtsbókasafninu en auk þess fjögur sýni sem sérstaklega voru fengin frá Kaupmannahafnarháskóla og eru frá heimaslóðum Jónasar í Öxnadal.

Björn G. Björnsson hannar sýninguna í Amtsbóksafninu og er hún sú fyrsta þriggja sýninga sem fyrirtæki hans, List og saga setur upp á árinu. Næst verður opnuð sýning á Norðurbryggju í Kaupmannahöfn 3. ágúst og verður þar lögð áhersla á náttúrufræðinginn Jónas. Þriðja sýningin verður svo opnuð í Þjóðmenningarhúsinu um miðjan október. Umsjónarmaður með dagskrá afmælisársins af hálfu menntamálaráðuneytis er Sveinn Einarsson en formaður nefndar ráðuneytisins vegna afmælisársins er Halldór Blöndal, alþingismaður.

Þess má svo geta að í júníbyrjun verður í Reykjavík og á Þingvöllum málþing um Jónas Hallgrímsson og á Náttúrufræðistofnun Íslands aðild að undirbúningi þess ásamt öðrum rannsókna- og háskólastofnunum.