Sýning Náttúrufræðistofnunar í Þjóðmenningarhúsinu - SURTSEY 1963-2130

Spennandi vísindamiðlun og spálíkan

Sýningin Surtsey – jörð úr ægi, rekur myndunar- og þróunarsögu Surtseyjar fram til dagsins í dag og spáir fyrir um framtíð eyjarinnar og þróun lífríkis hennar næstu 120 árin. Á sýningunni er beitt nýjustu sýningartækni og margmiðlun við kynningu á ómetanlegum niðurstöðum vísindarannsókna í Surtsey. Henni er ætlað að höfða jafnt til forvitinna barna sem fræðimanna og þess er vænst að gestir skynji kraft eldsumbrotanna um leið og þeir fræðast um eðli þeirra og sköpunarverk.

Einstakt myndefni


Gosið í Surtsey 5. febrúar 1964. Ljósm. Sigurður Þórarinsson.

Fjölmargir vísindamenn, hönnuðir, hugbúnaðarsmiðir og tæknimenn hafa komið að undirbúningi sýningarinnar. Hún styðst m.a. við einstakar ljósmyndir og kvikmyndir sem teknar voru af Surtseyjareldum og í eynni frá upphafi og fram á þennan dag.

Góður stuðningur

Auk ráðuneyta umhverfismála og menntamála hafa eftirtaldir aðilar styrkt sýninguna:

Umhverfisstofnun, Hitaveita Suðurnesja, Orkuveita Reykjavíkur og Landsvirkjun.

Jafnframt er stjórn og forstöðumanni Þjóðmenningarhúss, Hafrannsóknastofnuninni, Umhverfisstofnun, Vestmannaeyjabæ, Landhelgisgæslunni, Surtseyjarfélaginu og Heimsminjanefnd Íslands færðar þakkir fyrir stuðning og gott samstarf við undirbúning sýningarinnar.

Gert er ráð fyrir að sýningin verði síðar flutt til Vestmannaeyja og sett upp í nýrri Surtseyjarstofu sem þar mun rísa árið 2008.

Sýningin lokaði í mars 2009.


MEIRA UM SURTSEY Á VEF NÍ