Nýtt Fjölrit um áhrif beitarfriðunar á gróðurframvindu á lítt grónu landi

25.01.2008

Út er komið nýtt Fjölrit Náttúrufræðistofnunar, það 49. í ritröðinni, og fjallar það um áhrif beitarfriðunar á framvindu gróðurs og jarðvegs á lítt grónu landi. Höfundar eru þau Sigurður H. Magnússon á Náttúrufræðistofnun og Kristín Svavarsdóttir á Landgræðslu ríkisins.

Smellið á myndina til að fá rafræna útgáfu (23 MB).

Rannsökuð voru 12 landgræðslusvæði á láglendi og hálendi á suður- og norðurhluta landsins sem friðuð höfðu verið um áratuga skeið. Samanburður var gerður á friðuðu landi og aðliggjandi beittu landi til að kanna hver áhrif beitarfriðun hefði haft á gróðurframvindu við mismunandi aðstæður. Um er að ræða viðamestu rannsóknir sem gerðar hafa verið hér á landi á áhrifum sauðfjárbeitar á gróður á lítið grónu landi.

Niðurstöður sýna að friðun hraðaði gróðurframvindu, gróðurþekja jókst og fjölbreytni háplantna sömuleiðis. Áhrif friðunar reyndist mismikil eftir svæðum. Mest voru þau á láglendi þar sem loftslagsskilyrði voru best en minnst við erfið skilyrði á hálendi. Í ljós kom einnig að við góð skilyrði gat land gróið upp þrátt fyrir talsverða sauðfjárbeit en gróðurfar varð annað en á friðuðu landi. Ljóst er að beita má friðun til að flýta gróðurframvindu á lítt grónum svæðum, einkum á láglendi en einnig á hálendissvæðum þar sem vaxtarskilyrði gróðurs eru góð.

 

 

Plöntuvistfræðingarnir Kristín Svavarsdóttir og Sigurður H. Magnússon með nýja fjölritið. Ljósm. Borgþór Magnússon.

Í ritinu setja höfundar fram líkan um fyrstu stig framvindu á lítt grónu landi. Þar er gert ráð fyrir að þrír meginþættir ráði framvindunni, þ.e. jarðvegsgerð, loftslagsskilyrði og beit. Reiknað er með að fækkun sauðfjár og hlýnandi veðurfar eigi eftir að ýta mjög undir sjálfgræðslu lands á næstu áratugum.

Hægt er að nálgast rafræna útgáfu af Fjölritinu (PDF-skjal) með því að smella á myndina.

Eldri útgáfur af Fjölriti Náttúrufræðistofnunar

Ritstjóri: Margrét Hallsdóttir