Votviðrasöm Safnanótt

12.02.2008

Veðrið setti strik í reikninginn á Safnanótt og voru því færri gestir sem sóttu hana heim en ella. Náttúrufræðistofnun hélt þó fyrirhugaðri dagskrá sinni og þar mátti fræðast um ýmislegt tengt ljósi og ljóstillífun, framvindu og þróun lífs, og Surtsey.

Ýmislegt var í boði hjá Náttúrufræðistofnun á Safnanótt, bæði fyrir börn og fullorðna, og tengdist flest þema Safnanætur; ljósi. Fyrirlestrar um ljóstillífun og upphaf og þróun lífs í Surtsey voru fluttir í Möguleikhúsinu.

 

Þreifað fyrir sér í 'myrkraboxi'.
Ljósm. Anette Th. Meier.
Meðal þeirra gripa sem finna átti var djúpsjávarfiskurinn Lúsifer, Himantolophus groenlandicus. Ljósm. Anette Th. Meier.

Margt var að gerast í Náttúrugripasafninu við Hverfisgötu þar sem Náttúrufræðistofnun kynnti fyrir gestum og gangandi mikilvægi ljóss fyrir allt líf á jörðinni. Þar var ýmislegt í boði fyrir börnin, m.a. 'myrkrabox' þar sem þreifa átti fyrir sér í myrkum kassa og giska á innihaldið. Síðan var hægt að fá frekari upplýsingar um innihaldið og leita að raunverulega gripnum innan sýningarsalanna. Einnig var hægt að skoða þörunga undir smásjá.

 

Ljósberi, Lychnis alpina, var einnig einn þeirra gripa sem finna átti í 'myrkraboxinu'.
Ljósm. Anette Th. Meier.
Þörungar skoðaðir í smásjá.
Ljósm. Anette Th. Meier.


Vert er að geta þess að ýmislegt tengt Safnanótt, eins og t.d. 'myrkraboxin' og Safnanæturbarmmerki, verður áfram í boði í sýningarsölum Náttúrufræðistofnunar. Sýningarsalirnir eru opnir á milli 13.30 og 16 á þriðjudögum, fimmtudögum, laugardögum og sunnudögum - aðgangur ókeypis. 

 

Sjálflýsandi örvar og letur leiddu menn frá biðstöðinni á Hlemmi og örsýningunni í Möguleikhúsið og sýningarsali Náttúrufræðistofnunar. Ljósm. Anette Th. Meier. Meðal þess sem hægt er að sjá á örsýningunni um rjúpuna er fálki með fangaða rjúpu í hreiðri sínu. Ljósm. Anette Th. Meier.

Á Hlemmi var örsýning um rjúpuna, sem var sérstaklega skreytt rjúpuljósaseríu fyrir Safnanótt. Örsýningin um rjúpuna og árstíðirnar verður uppi í nokkrar vikur í viðbót.

 

Áhugasamir safnverjar. Ljósm. Anette Th. Meier. Húsnæði Náttúrufræðistofnunar var skreytt í bak og fyrir með auðkenni stofnunarinnar – hrafninum. Ljósm. Anette Th. Meier.

Húsnæði Náttúrufræðistofnunar að Hlemmi 3 var skreytt í tilefni Safnanætur og lýsti auðkenni stofnunarinnar – hinn mikli vísdómsfugl hrafninn – upp glugga húsnæðisins.