Húshumlan klikkar ekki

28.04.2008
Fáir vorboðar eru eins stundvísir og húshumlan. Jafnan hefur mátt stilla dagatalið eftir því hvenær hún birtist á vorin, en dagurinn sá er 19. apríl. Nú brá hins vegar svo við að húshumlan færði sig fram um einn dag og vaknaði af vetrarsvefninum 18. apríl víða um sunnanvert landið. Var hún að þjófstarta að þessu sinni? Nei, ekki aldeilis. Nú er hlaupár og húshumlan hefur augljóslega tekið tillit til þess og því fært sig fram um einn dag á dagatalinu! Stundvísari gat hún því alls ekki verið.
Húshumla (Bombus lucorum) nýskriðin úr vetrarhíði í Fljótshlíð 23. apríl 2004. Ljósm. Erling Ólafsson.

Húshumlan (Bombus lucorum) er sannur vorboði og eru flestir nú farnir að taka henni fagnandi sem slíkum. Áður fyrr stóð mörgum stuggur af þessum bústna og pattaralega röndótta landnema sem var talinn gera sig kláran til hryðjuverka þegar hann kom aðvífandi á þyngslalegu flugi. En nú hafa flestir áttað sig á að hér fer ljúflingur sem prýðir og lífgar upp á garða okkar og blómabeð. Vissulega hefur hann vopn til að verja sig ef að honum er vegið, en því beitir hann eingöngu í ýtrustu neyð.

Þann 18. apríl bárust Náttúrufræðistofnun Íslands tilkynningar um húshumlur á kreiki í Kópavogi, Reykjavík, undir Eyjafjöllum og í Hornafirði. Þær voru því vel samstilltar um allt sunnanvert landið. Enn hafa ekki borist tilkynningar frá öðrum landshlutum.

Fræðist frekar um humlurnar okkar hér.