Náttúrufræðistofnun Íslands og Sveitarfélagið Álftanes undirrituðu samstarfssamning um rannsóknir á margæs

17.04.2008
Náttúrufræðistofnun hefur á hverju vori síðan 2001 rannsakað vistfræði margæsa sem hafa viðdvöl á Álftanesi og nágrenni. Nú hefur verið gerður samstarfssamningur um sérstakt rannsóknarverkefni til nokkurra ára, þar sem metin verða áhrif nýs vegstæðis og aukinnar byggðar á nýtingu margæsar á túnum við Norðurnesveg.

Jafnframt verða áhrif mótvægisaðgerða í formi endurræktar túna og áburðargjafa metin. Um 3000 margæsir hafa á hverju vori, í apríl og maí, viðdvöl á Álftanesi og nærsvæðum (Hvaleyri - Grótta) en það er um 10% af stofni margæsa sem fer um Ísland á leið sinni milli vetrarstöðva á Írlandi og varpstöðva í Kanada.

Jón Gunnar Ottósson forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands og Sigurður Magnússon bæjarstjóri á Álftanesi skrifa undir samninginn að Bjarnastöðum 14. apríl. Með á myndinni er Guðmundur A. Guðmundsson vistfræðingur og sérfræðingur í margæs (til vinstri) og fulltrúar landeigenda, Gunnar Stefánsson og Úlfar Ármannsson (til hægri). Ljósm. Kristín Fjóla Bergþórsdóttir.

 

Ljósmynd á forsíðu er tekin af Daníel Bergmann og sýnir margæs sem merkt er með litmerki á fótum.

 

Frekari upplýsingar um margæsarannsóknir hjá Náttúrufræðistofnun má nálgast hér.