Vorið er tími sinuelda - tvö ár liðin frá Mýraeldum

03.04.2008

Undanfarnar vikur hefur verið þurrt í veðri sunnanlands og aðstæður skapast fyrir sinu- og gróðurelda. Nokkrir smáeldar hafa komið upp á höfuðborgarsvæðinu og hefur slökkvilið verið kallað út til að hemja þá. Breyting varð hins vegar á til batnaðar þegar úrkomu gerði 2. apríl og bleytti í gróðri. Full ástæða er þó til að hvetja fólk til að vera áfram á varðbergi og fara varlega með eld ef vorið verður þurrviðrasamt. Þegar jörð tekur að grænka og trjágróður að laufgast dregur hins vegar að jafnaði verulega úr eldhættu.

Sinueldarnir miklu sem brunnu á Mýrum 30. mars – 1. apríl 2006 kviknuðu í kjölfar langvarandi þurraþræsings. Nú þegar tvö ár eru liðin frá Mýraeldum koma heimamenn á Mýrum saman og efna til hátíðarinnar Eftir eld í Lyngbrekku. Þar gefst m.a. færi á að kynna sér nýjustu niðurstöður rannsókna á áhrifum eldanna á lífríki Mýra.

 

Brunasvæðið á Mýrum á öðru sumri eftir elda. Gróskuleg vallhæra og klófífa eru hér ríkjandi í gróðri og hafa náð sér vel á strik en gulvíðirinn á langt í land. Ljósm. Erling Ólafsson, 20. júní 2007.

Framvinda á öðru sumri eftir elda

Rannsóknir á áhrifum Mýraelda hófust í kjölfar eldanna sumarið 2006 og hafa niðurstöður þeirra þegar verið kynntar. Sumarið 2007 var rannsóknum á svæðinu haldið áfram og birtust fyrstu niðurstöður þeirra á Fræðaþingi landbúnaðarins 2008 þar sem greint var frá athugunum á fuglum, gróðri og vötnum. Það eru Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrufræðistofa Kópavogs og Landbúnaðarháskóli Íslands sem standa að rannsóknunum.

 

 

 

 

 

 

Kvistgróður fór illa í eldunum á Mýrum. Hér er fjalldrapi að vaxa upp af rót að nýju. Ljósm. Erling Ólafsson, 22. júní 2007.

Rannsóknir á fuglum á Mýrum sumarið 2007 sýna að þéttleiki mófugla var meiri á brunalandinu en óbrunnu samanburðarlandi eins og fram kom í kjölfar eldanna sumarið 2006. Þessi munur var mest sláandi fyrir þúfutittling og hrossagauk sem algengastir eru á svæðinu. Rannsóknir á gróðri 2007 sýna að plöntur hafa jafnað sig talsvert eftir brunann og stefnir gróðurfar til fyrra horfs. Í ljós kom að nokkrar tegundir, einkanlega beitilyng, krækilyng, mýrelfting og vallhæra höfðu aukið útbreiðslu sína verulega á brunna landinu frá sumrinu 2006. Rannsóknir á vötnum 2007 benda til að eldarnir hafi ekki haft umtalsverð áhrif á vatnsgæði. Áhrif á vötnin voru hins vegar merkjanleg og komu m.a. fram í því að hærri rafleiðni og styrkur katjóna mældist í vötnum innan brennda svæðisins en utan þess.

 

 

Þeir sem vilja fræðast nánar um nýjustu niðurstöður rannsókna á Mýraeldum geta sótt greinar frá Fræðaþingi landbúnaðarins 2008 sem pdf skjal hér á heimasíðunni (0,9 MB), en titlar þeirra og höfundar eru eftirfarandi:

Áhrif Mýraelda á fugla. Guðmundur A. Guðmundsson, Kristinn H. Skarphéðinsson og Freydís Vigfúsdóttir, Náttúrufræðistofnun Íslands.

Áhrif Mýraelda vorið 2006 á eðlis- og efnaþætti vatns sumarið 2007. Hilmar J. Malmquist, Finnur Ingimarsson, Haraldur R. Ingvason og Stefán Már Stefánsson, Náttúrufræðistofu Kópavogs.

Endurnýjun plantna eftir sinubrunann á Mýrum 2006. Járngerður Grétarsdóttir, Landbúnaðarháskóla Íslands.

 

Frekari fróðleik um Mýraelda á heimasíðu NÍ er að finna hér.