Undirritun samkomulags um aukna samvinnu milli Samnings um líffræðilega fjölbreytni (CBD) og Bernarsamningsins

29.05.2008
Á níunda aðildarríkjafundi Samnings um líffræðilega fjölbreytni (CBD) sem haldinn var í Bonn dagana 19. til 30. maí var samkomulag um aukna samvinnu milli CBD og Bernarsamningsins undirritað.

Bernarsamningurinn er einn helsti samningur Evrópu á sviði náttúruverndar og undirstaða náttúruverndarlöggjafar margra Evrópuþjóða. Öll 47 aðildarríki Bernarsamningsins eru jafnframt aðilar að CBD, sem hefur 191 aðildarríki. Aukin samvinna þessara aðila gerir þeim betur kleift að takast á við nýjar áskoranir og verkefni, svo sem loftslagsbreytingar, í viðleitni sinni til að ná settum markmiðum og stöðva rýrnun líffræðilegrar fjölbreytni.

 

Jón Gunnar Ottósson (fyrir miðju), forseti Bernarsamningsins og forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands, er hér ásamt Ahmed Djoghlaf (t.h.), framkvæmdastjóra (Executive Secretary) Samningsins um líffræðilega fjölbreytni, og Eladio Fernandez-Galiano, deildarstjóra deildar um líffræðilega fjölbreytni hjá Evrópuráðinu, við undirritun samkomulags um aukna samvinnu, 23. maí 2008.

Nánari upplýsingar um samkomulagið má nálgast hér.