Válisti háplantna endurskoðaður

Í framhaldi af viðamiklu vöktunarverkefni sem Náttúrufræðistofnun Íslands hefur unnið í samstarfi við grasagarðana í landinu, Lystigarðinn á Akureyri og Grasagarðinn í Reykjavík, þar sem þekktir fundarstaðir háplantna á válista voru heimsóttir, útbreiðsla þeirra kortlögð og stofnstærð metin, hefur válisti háplantna verið endurskoðaður. Tegundirnar eru nú metnar skv. nýjustu skilyrðum IUCN (Alþjóða Náttúruverndarsamtakanna) sem samþykkt voru árið 2000 en þau skilyrði eru nokkuð breytt frá þeim skilyrðum sem giltu þegar fyrsta útgáfa válistans kom út.

Alls voru 79 tegundir háplantna metnar. Flokkarnir sem tegundirnar voru flokkaðar í eru:

–        RE (Regionally extinct), útdauðar í náttúrunni – 1 tegund

–        CR (Critically endangered), í bráðri hættu – 5 tegundir

–        EN (Endangered), í hættu – 8 tegundir

–        VU (Vulnerable), í yfirvofandi hættu – 31 tegund

–        DD (Data deficient), upplýsingar ófullnægjandi – 4 tegundir

–        NT (Near threatened), í nokkurri hættu – 11 tegundir

–        LC (Low concern), metin en ekki í hættu – 15 tegundir

–        NA (Not applicable), uppfyllir ekki forsendur mats – 4 tegundir

Þær tegundir sem lenda á válista (þ.e. tilheyra flokkunum ER, CR, EN, VU og DD), alls 45 tegundir, leggur Náttúrufræðistofnun til að verði friðlýstar. Samtímis bendir Náttúrufræðistofnun á að nokkrar friðlýstar tegundir lenda utan válista (þ.e. tilheyra flokkunum NT, LC og NA) en það á við um 6 tegundir.

Tillaga Náttúrufræðistofnunar Íslands að válistaflokkun háplantna:

ER, útdauðar í náttúrunni:

Davíðslykill, Primula egaliksensis

CR, í bráðri hættu:

Skeggburkni, Asplenium septentrionale

Mýramaðra, Galium palustre

Mosaburkni, Hymenophyllum wilsonii

Glitrós, Rosa dumalis

Vatnsögn, Tillaea aquatica

EN, í hættu:

Svartburkni, Asplenium trichomanes

Tunguburkni, Blechnum spicant v. fallax

Vorstör, Carex caryophyllea

Trjónustör, Carex flava

Herjólfshár, Danthonia decumbens

Burstajafni, Lycopodium clavatum

Tjarnarblaðka, Persicaria amphibia

Flæðarbúi, Spergularia salina

VU, í yfirvofandi hættu:

Lyngbúi, Ajuga pyramidalis

Ljósalyng, Andromeda polifolia

Ginhafri, Arrhenatheru elatius

Klettaburkni, Asplenium viride

Hrísastör, Carex adelostoma

Safastör, Carex diandra

Heiðastör, Carex heleonastes

Gljástör, Carex pallescens

Hlíðaburkni, Cryptogamma crispa

Skógelfting, Equisetum sylvaticum

Sandlæðingur, Glaux maritima

Flæðalófótur, Hippuris tetraphylla

Fitjasef, Juncus gerardii

Stinnasef, Juncus squarrosus

Rauðkollur, Knautia arvensis

Munkahetta, Lychnis flos-cuculi

Naðurtunga, Ophioglossum azoricum

Súrsmæra, Oxalis acetosella

Stefánssól, Papaver radicatum ssp. stefanssonii

Flóajurt, Persicaria maculosa

Blæösp, Populus tremula

Maríulykill, Primula stricta

Þyrnirós, Rosa pimpinellifolia

Lónajurt, Ruppia maritima

Fjallkrækill, Sagina caespitosa

Hreistursteinbrjótur, Saxifraga foliosa

Blátoppa, Sesleria albicans

Línarfi, Stellaria borealis

Rauðberjalyng, Vaccinium vitis-idaea

Laugadepla, Veronica anagallis-aquatica

Giljaflækja, Vicia sepium

DD, upplýsingar ófullnægjandi:

Keilutungljurt, Botrychium minganense

Lækjabrúða, Callitriche brutia

Hveraaugnfró, Euphrasia calida

Hagabrúða, Valeriana sambucifolia

Þær sex tegundir sem eru friðlýstar en eru ekki á válista eftir endurskoðun eru:

Dvergtungljurt, Botrychium simplex

Villilaukur, Allium oleraceum

Ferlaufasmári, Paris quadrifolia

Eggtvíblaðka, Listera ovata

Blóðmura, Potentilla erecta

Skógfjóla, Viola rivinana

 

Válisti 1 - Plöntur (frá 1996, pdf)