Lærðu að þekkja blóm og jurtir - blómaskoðunarferðir um helgina

12.06.2008

Um helgina er nóg um að vera fyrir náttúruunnendur. Á laugardag býður Sesseljuhús í Sólheimum upp á náttúruskoðun fyrir alla fjölskylduna, og á sunnudag er Dagur hinna villtu blóma þar sem boðið er upp á gönguferðir víðs vegar um landið.

Holtasóley. Ljósm. Snorri Baldursson.

Laugardaginn 14. júní mun Sigurður H. Magnússon, gróðurvistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, flytja erindið „Líttu niður! Að læra að þekkja blóm og jurtir“ í Sesseljuhúsi í Sólheimum. Að erindi loknu verður farið í náttúruskoðun. Erindi Sigurðar er liður í fundaröð Sesseljuhúss „Að lesa í landið“. Frekari upplýsingar hér.

Á Degi hinna villtu blóma, sunnudaginn 15. júní, gefst fólki víðs vegar um landið kostur á að fara í tveggja tíma gönguferð um nágrenni sitt og fá leiðsögn um algengustu plöntur sem þar vaxa. Gróa Valgerður Ingimundardóttir, líffræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, mun leiða fólk um Elliðaárdal, og Hörður Kristinsson, fléttufræðingur, leiðir fólk um Leifsstaðabrúnir norðan Kaupangs í Eyjafjarðarsveit. Nánari upplýsingar um allar gönguferðir á Degi hinna villtu blóma er að finna hér.

Rétt er að benda á Plöntuvefsjá Náttúrufræðistofnunar þar sem ítarlegar upplýsingar um allar plöntur landsins er að finna.