Veiðiráðgjöf NÍ 2006 - Draga þarf verulega úr rjúpnaveiðum

22.07.2008

Fréttatilkynning frá Náttúrufræðistofnun Íslands 6. september 2006:

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur metið veiðiþol rjúpnastofnsins og byggist matið á þeirri stefnu stjórnvalda að rjúpnaveiðar séu sjálfbærar í þeim skilningi að stofninn nái að sveiflast á milli lágmarks- og hámarksára innan þeirra marka sem náttúrleg skilyrði setja honum hverju sinni. Óvæntir atburðir hafa orðið í rjúpnastofninum og talningar sýna að stofninn er á niðurleið um land allt eftir aðeins tvö ár í uppsveiflu og viðkoman er léleg annað árið í röð. Lagt er til að dregið verði úr rjúpnaveiði í haust með því að takamarka veiðitíma verulega og að sölubann gildi áfram.

Niðurstöður frá einstökum talningasvæðum sýna að meðaltali 12% fækkun rjúpna frá fyrra ári. Þessi hnignun stofnsins endurspeglast í afkomu fuglanna. Afföll þeirra hafa aukist og eru komin aftur í sama horf og fyrir friðun haustið 2003.

Í skýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands er farið yfir aðferðafræðina við mat á veiðiþoli rjúpunnar, niðurstöður vöktunar 2006, veiðina 2005, breytingar á afföllum frá 1981 og árangur veiðistjórnunar 2005.

Stjórn rjúpnaveiða árið 2005 tókst á margan hátt ágætlega. Stefnt var að 70.000 fugla veiði og út frá neyslukönnun er áætlað að veiðin hafi verið um 80.000 fuglar. Innkomnar veiðiskýrslur eru í samræmi við þá niðurstöðu. Miðað við sóknargetu veiðimanna er augljóst að þeir hafa langflestir dregið verulega úr veiðum sínum. Það er mat Náttúrufræðistofnunar að því ráði bæði áskorun til veiðimanna 2005 um að sýna hófsemi og eins sölubann á rjúpur. Þrátt fyrir þetta gengu væntingar um afkomu rjúpunnar ekki eftir. Ljóst er að margir þættir aðrir en skotveiðar hafa áhrif á afkomu rjúpunnar og það er talið líklegt að óhagstætt tíðarfar sumar og haust 2005 hafi verið afdrifaríkt.

Náttúrufræðistofnun hvetur til varfærni við ákvörðun á umfangi rjúpnaveiða 2006. Áætlaður varpstofn 2006 er 180.000 fuglar og er það fækkun um 40.000 fugla frá í fyrra. Við mat á veiðiþoli er miðað við að afföll unga verði nú á haustdögum líkt og 2005 og útreikningar á stærð veiðistofns miðast við að hlutfall unga verði 70%, þ.e. sama og haustið 2005. Stærð veiðistofns 2006 er metin um 500.000 fuglar og ásættanleg veiði miðað við forsendur stjórnvalda um sjálfbærar veiðar um 45.000 fuglar.

Til að takmarka veiðina 2006 er lagt til að sölubann gildi áfram, veiðitíminn verði styttur verulega og að veiðimenn verði hvattir til að sýna hófsemi. Jafnframt þessu hvetur Náttúrufræðistofnun til að griðland fyrir rjúpur verði áfram á Suðvesturlandi og að neyslukönnun verði gerð í byrjun janúar 2007 til að fá óháð mat á veiði 2006 til samanburðar við veiðitölur. Báðir þessir þættir hafa ótvírætt sannað gildi sitt.

Skýrsla Náttúrufræðistofnunar um mat á veiðiþoli rjúpunnar, niðurstöður vöktunar 2006, veiðina 2005, breytingar á afföllum frá 1981 og árangur veiðistjórnunar 2005.

Umsjónarmaður rjúpnarannsókna og vöktunar rjúpnastofnsins á Náttúrufræðistofnun er Ólafur K. Nielsen, fuglafræðingur.