Náttúrufræðistofnun gerist aðili að STERNA

03.10.2008

Fyrir skömmu varð Náttúrufræðistofnun Íslands formlega aðili að verkefni í upplýsingatækni sem nefnist STERNA (Semantic Web-based Thematic European Reference Network Application), og er hluti af “eContentplus” áætlun Evrópusambandsins. Verkefnið hlaut 1,5 milljón evra styrk í júní 2008 og stendur yfir í tæp þrjú ár. Verkefnið er tilraun um að gera hvers kyns upplýsingar um náttúruna aðgengilegar á netinu.

Langvía (Uria aalge) er strandfugl af svartfuglaætt og finnst víða á Íslandi. Upplýsingar um hana verður að finna í STERNA verkefninu. Ljósm. Freydís Vigfúsdóttir.

Eitt af meginmarkmiðum STERNA verkefnisins er að búa til kostnaðarlítil tól sem henta litlum og meðalstórum stofnunum með þröngan fjárhag. Þátttakendur eru 12 náttúrugripasöfn og stofnanir frá tíu Evrópulöndum. Hvert safn og stofnun leggur til efni og uppfærir á eigin tölvuþjónum. Gagnabankinn liggur því dreifður á mörgum stöðum en upplýsingarnar verða síðan tengdar saman í eina heild. Það verður m.a. gert með því að útbúa með sjálfvirkri tækni atriðisorðaskrá og gagnalýsingu, sem jafnframt er flokkuð eftir stigskiptu kerfi (RDF og SKOS) á máli hvers lands. Til að einfalda tæknilegar útfærslur verður áhersla lögð á efni sem tengist fuglum, hvort sem það eru vísindagögn um safneintök, málverk, ljósmyndir, kvikmyndir eða sögur.

 

Vefur STERNA