Evrópufrjókorn falla með þurramistrinu

04.11.2008
Síðustu daga hefur mælst mjög mikið af birkifrjóum í loftinu yfir Reykjavík. Einnig askfrjó, eikarfrjó og beykifrjó. Þessi frjókorn eru líklega það sem kallast langt að borin, komin alla leið frá laufskógum meginlands Evrópu. Á vef Veðurstofunnar má lesa að þurramistrið sem hér hefur verið undanfarna þrjá daga eigi upptök í Suður-Póllandi og Lettlandi þannig að frjókornin sem hér falla í frjógildruna við Veðurstofuna gætu verið upprunnin á þeim slóðum.

Mánudaginn 8. maí fór frjótala fyrir birki í Reykjavík yfir 120 sem er ámóta og hæstu toppar sem mælast hér á birkitíma. Á þriðjudeginum 9. var frjótalan hins vegar orðin yfir 400, sem samsvarar heilu vori í venjulegu árferði. Þess má geta að um helgina fór frjótala birkis í Kaupmannahöfn yfir 4000 og hefur aldrei áður mælst jafnhá í 28 ára sögu frjómælinga í Danmörku, sjá vef Danmarks Meteorologiske Institute. Angi af þessu “frjókornaskýi” hefur líklega náð alla leið hingað til Íslands því íslenska birkið er ekki farið að blómstra ennþá svo þaðan geta frjókornin tæplega verið komin. Í Evrópu er allur trjágróður seinna á ferðinni en vanalega því þar voraði óvenju seint í ár.

Annað sem bendir til erlends uppruna er að birkifrjóin komu jafnt og þétt í frjógildruna allan sólarhringinn, enga dægursveiflu var að sjá sem oftast er raunin þegar birkitíminn stendur yfir hér á landi. Samanburð frá Akureyri höfum við því miður ekki en vegna mistaka náðust ekki gögn þaðan yfir þennan tíma.

Gulleitt birkifrjóskýið yfir Evrópu sást vel á myndum frá veðurtunglum EUMETSAT, Evrópsku verðufræðistofnunarinnar.