Slóðir fiðrildanna

Á Náttúrufræðistofnun Íslands fer fram skipulögð vöktun á stofnum fiðrilda. Verkefnið hófst árið 1995 eða um það leyti sem breytinga fór að gæta svo almennt væri eftir því tekið. Stöðluð sýnataka hefur síðan farið fram óslitið á tveim stöðum, í Fljótshlíð og Öræfum, eða alls í 14 ár. Þann 12. nóvember næstkomandi lýkur sýnatöku ársins 2008.

Sýnatakan fer fram sjálfvirkt með þar til gerðum ljósgildrum sem laða að sér fiðrildin og fanga þau. Gildrurnar eru tæmdar einu sinni í viku frá miðjum apríl og fram í miðjan nóvember. Þannig er skráð afkoma tegundanna sem hver og ein á sinn takmarkaða flugtíma á þessu tímabili. Fram kemur hvernig ein tegund tekur við af annarri og hvernig aðrar spila saman. Margt má lesa út úr gögnunum, m.a. um stofnbreytingar á milli ára eftir árferði hverju sinni og innrásir útlendra tegunda með loftstraumum frá öðrum Evrópulöndum, sem sumar hverjar bíða færis á að nema hér land. Verkefnið hefur þegar stóraukið þekkingu á fiðrildunum okkar og spennandi er að fylgjast áfram með framvindu mála eftir því hvernig loftslag þróast.



Verið velkomin á Hrafnaþing!



Verið velkomin á Hrafnaþing!

Máttur ljóssins laðar að sér fiðrildin. Ljósgildra á Mógilsá í Kollafirði lýsir upp umhverfið á dimmri nóttu 29. september 2008. Ljósm. Erling Ólafsson. Haustfeti (Operophtera brumata) hefur látið ljósið tæla sig og sest á gildruna. Mógilsá 29. september 2008. Ljósm. Erling Ólafsson.

Auk upphafsstaðanna tveggja, Tumastaða í Fljótshlíð og Kvískerja í Öræfum, hefur sýnataka farið fram víðar í skemmri tíma. Sýnataka fór fram í Skaftafelli um nokkurra ára skeið en var aflögð. Á þessu ári hefur sýnum verið safnað á fjórum stöðum öðrum, þ.e. Mógilsá í Kollafirði (síðan 2005), Rauðafelli (2005) og Skógum (2006) undir Eyjafjöllum og á vegum Náttúrustofu Norðausturlands við Ásbyrgi í Kelduhverfi (síðan 2007).

Gríðarmikil gögn hafa safnast fyrir og enn er töluvert í land með úrvinnslu þeirra og kynningu. Verkefnið er kynnt ítarlegar annars staðar á vefsíðu Náttúrufræðistofnunar (sjá hér).

Það skal áréttað að mikilvægt er að fylgjast náið með áhrifum loftslagsbreytinga á lífríki landsins okkar. Slíkar rannsóknir hafa ekki einvörðungu fræðilegt gildi, þar sem þekking á áhrifum á einstaka hópa lífvera getur skýrt ýmsar aðrar breytingar sem kunna að skipta meira máli fyrir þjóðarhag. Það þyrfti því að hrinda í framkvæmd vöktunarverkefnum af mörgum toga sem allra fyrst, þ.e. áður en lestin hefur brunað framhjá okkur. Það verður nefnilega ekki vaktað eftir á frekar en tryggt.