Vetrarfuglatalning í vorveðri

Óvenju fáar tegundir sáust að þessu sinni (71) enda sáust fremur fáir flækingsfuglar. Flest bendir til þess að niðurstöður í ár verði verulega frábrugðnar fyrir margar tegundir. Hlýindin og snjóleysið undanfarnar vikur valda því að mjög lítið fannst af snjótittlingum. Einnig sáust færri álftir, gæsir og vaðfuglar en venjulega. Þá var minna af flestum andartegundum, einkum svokölluðum gráöndum (stokkönd, rauðhöfði og urtönd). Hafa þessir fuglar væntanlega verið miklu dreifðari en venjulega. Óvenju lítið sást af svartfuglum (nema teistu) en meira af flestum öðrum sjófuglum, einkum var mun meira af skörfum og súlu. Eins var óvenju mikið af máfum sums staðar, einkum á norðanverðu Snæfellsnesi, en þar hlökkuðu þessir mathákar yfir síldartorfum. Við Eyjar byltu háhyrningar sér innan um hundruðir súlna sem köstuðu sér í vaðandi síld og er það óvenjuleg sjón á þessum árstíma.


Óvenju mikið sást af flestum sjófuglum í vetrarfuglatalningunum, þ.á m. súlum. Ljósm. Freydís Vigfúsdóttir.

Eins og áður var æðurin algengust og sáust ríflega 50 þúsund fuglar. Aðrar algengar tegundir voru svartbakur, hvítmáfur, hávella og stokkönd. Meðal sjaldgæfra tegunda má nefna svokallaðan norðmáf sem aðeins hefur sést hér einu sinni áður. Ungur fugl var í Kolgrafarfirði á Snæfellsnesi og hefur hann flækst þangað frá heimskautalöndum Norður-Ameríku.