Vetrarfuglatalning 2008

02.02.2009

Vetrarfuglar voru taldir í 57. sinn um síðastliðin áramót. Óvenju fáar tegundir (73) sáust, enda komu fremur fáir flækingsfuglar fram í talningunni. Eins voru niðurstöðurnar verulega frábrugðnar fyrir margar tegundir. Hlýindin og snjóleysið fram yfir áramót ollu því að mjög lítið fannst af snjótittlingum og eins sáust færri álftir, grágæsir og vaðfuglar en oftast nær. Hafa þessir fuglar væntanlega verið miklu dreifðari en venjulega vegna hlýindanna. Reyndar virðist vaðfuglum hafa fækkað statt og stöðugt í talningum á undanförnum árum. Mun meira sást af skörfum en oftast áður og miklu meira af súlu sem hverfur yfirleitt frá landinu yfir háveturinn. Eins var óvenju mikið af máfum sums staðar, einkum þar sem síld var að finna. Niðurstöður vetrarfuglatalninga 2002-2008 er að finna á vef Náttúrufræðistofnunar.

Formlegur talningardagur var 28. desember 2008 en talið var á tímabilinu 25. desember til 25. janúar 2009, þar af á 12 svæðum eftir 10. janúar. Að þessu sinni voru talin 172 svæði, fleiri en nokkru sinni áður. Yfir 150 manns tóku þátt í talningunni að þessu sinni og töldu margir fleiri en eitt svæði. Eins og undanfarin ár voru þau Böðvar Þórisson og Petrína F. Sigurðardóttir stórtækust og töldu á 24 svæðum.

1. mynd. Vísitölur vaðfugla í vetrarfuglatalningum 2002-2008. Svo virðist sem vaðfuglum sem hafa hér vetursetu hafi fækkað jafnt og þétt síðan 2002 (sjá Guðmund A. Guðmundsson o.fl., Bliki 29; 62-64). Talningarsvæðum utan Suðvesturlands hefur fjölgað mikið á sama tímabili og gæti það dregið niður meðalfjölda fugla á hverju svæði. Unnið er að frágangi gagna svo reikna megi traustari vísitölur.

2. mynd. Æðarfugl í vetrarfuglatalningu 2008. Æðurin er útbreidd í fjörum og á grunnsævi umhverfis land allt og sást á 125 af 130 strandsvæðum. Alls sáust nær 62 þúsund fuglar en vetrarstofn íslenskra æðarfugla er talinn um 1 milljón fugla, auk vetrargesta frá Grænlandi.

Vetrarfuglatalningar ná yfir minna en tíunda hluta strandlengjunnar og fremur fá svæði eru skoðuð inn til landsins. Því er aðeins verið að telja lítinn hluta þeirra fugla sem hér hafa vetursetu. Með því að staðla vinnubrögð og telja á sömu svæðum ár eftir ár má hins vegar reikna út vísitölur fyrir margar tegundir. Talningarsvæðin eru misdreifð og gögn vantar víða frá mikilvægum fuglasvæðum, t.d. við norðanverðan Faxaflóa og Breiðafjörð. Auðtaldar og áberandi tegundir eins og tjaldur eru væntanlega útbreiddar á þeim slóðum (3. mynd). Þess má geta að um 1000 tjaldar sáust í utanverðum Berufirði í Barðastrandasýslu fáeinum dögum eftir formlegar talningar í nágrenni Reykhóla. Sendlingur er eina vaðfuglategundin sem sést reglulega í öllum landshlutum að vetrarlagi (4. mynd).

3. mynd. Tjaldur í vetrarfuglatalningu 2008. Er að mestu farfugl, en nokkur þúsund fuglar þreyja hér þorrann. Alls sáust 2106 tjaldar á 30 talningasvæðum. Langmest er af tjaldi á suðvesturhorni landsins, einkum á Innnesjum, í Hvalfirði og kringum Akranes. Er einnig árviss og oft í hundraðatali í Hornafirði en sjaldgæfur á Vestfjörðum og sunnanverðum Austfjörðum (37 fuglar fundust 2008). Talningar vantar á stórum svæðum við norðanverðan Faxaflóa og víða við Breiðafjörð þar sem tjalds er að vænta.4. mynd. Sendlingur í vetrarfuglatalningu 2008. Eini vaðfuglinn sem sést í öllum landshlutum á veturna og heldur þá einkum til í þangi vöxnum klapparfjörum en einnig á leirum í góðri tíð. Er einna algengastur suðvestanlands. Alls sáust 3212 sendlingar á 60 svæðum að þessu sinni.

 

Tveir talningamenn, þeir Hálfdán Björnsson á Kvískerjum og Arnþór Garðarsson í Reykjavík, hafa tekið þátt í vetrarfuglatalningum frá upphafi (1952) og hefur Hálfdán talið öll árin. Þá hófu sumir talningu fyrir hálfri öld eða meira: Páll G. Björnsson og Tryggvi Stefánsson (töldu báðir fyrst í Fnjóskadal 1954); Tryggvi Eyjólfsson á Lambavatni og Vilhjálmur Lúðvíksson á Rosmhvalanesi (1956); Skúli Gunnarsson á Seyðisfirði (1957) og Örn Jensson á Húsavík (1958). Tveir talningarmenn úr hópi frumherjanna féllu frá á síðasta ári, Sigurður Helgason sem byrjaði að telja í Stykkishólmi 1958 og Sigurður Gunnarsson á Húsavík en hann taldi fyrst á Arnarnesi í Kelduhverfi 1952.

 

Nánari umfjöllun um niðurstöður talninga á einstökum svæðum er að finna á heimasíðum Náttúrustofu Vesturlands, Náttúrustofu Vestfjarða, Náttúrustofu Norðurlands vestra, Náttúrustofu Norðurlands eystra, Haraldarhúss á Akranesi og Reykhólahrepps.

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í vetrarfuglatalningum geta snúið sér til Náttúrufræðistofnunar í síma 5900500 eða haft samband í tölvupósti (mummi@ni.is, kristinn@ni.is, svenja@ni.is).