Nýjar heimssteindir - eldfellít og heklaít

Í eldgosum, eða í kjölfar þeirra, myndast yfirleitt ýmiss konar útfellingar. Þessar eldfjallaútfellingar mynda marglitar skánir við gígop, á yfirborði hrauna eða í hraunhellum. Flestar útfellinganna myndast beint úr hraunkvikugasi sem streymir út um op í kólnandi berginu, aðrar myndast úr vatnsgufu og þá einkum í hraunhellum.

Steind er fast efni eða efnasamband sem finnst sjálfstætt í náttúrunni og er ekki af lífrænum toga. Í heiminum hafa til þessa verið greindar um 4400 steindategundir. Á undanförnum árum hafa bæst í hópinn 50-60 nýjar steindir árlega. Dæmi um íslenskar steindir eru m.a. kvars og seguljárnsteinn.


Útfellingasvæðið í gossprungunni sem var virk norðaustan í Heklu 1991, fundarstaður heklaíts. Horft er úr 1110 m hæð til austurs. Myndina tók Sigurður S. Jónsson, 15. september 1993. Þessi staður er nú alveg hulinn gjalli úr Heklugosinu 2000.

Í rannsóknunum voru eldfjallaútfellingarnar greindar með röntgenbrotgreiningum sem gerðar voru á steindafræðideild Háskólans í Kaupmannahöfn og hjá Íslenskum orkurannsóknum. Í ljós kom að þessar útfellingarnar eru samsettar úr fjölda mismunandi steindategunda, sumar þeirra smásæar. Í Surtsey greindust 34 tegundir útfellingasteinda, algengastar voru gifs, ópal-A, kalsít, halít, flúorít, ralstonít og thenardít. Í Eldfelli og Eldfellshrauni í Heimaey greindist 31 tegund, algengastar voru anhydrít, ópal-CT, ralstonít, gifs og hematít. Í útfellingum úr Heklugosinu 1991 greindust 36 tegundir, algengastar voru ralstonít, ópal-A, malladrít, hematít og tvær óþekktar steindategundir.

Í ljós kom að 27 steindanna voru ekki áður þekktar í náttúrunni. Nokkrar þeirra hafa þó áður verið búnar til í tilraunastofum. Þessum óþekktu steindum hefur verið skipt í fjóra hópa: nýjar, samþykktar heimssteindir (2 tegundir); nýjar, að hluta greindar sem nýjar steindir (4 tegundir); líklegar nýjar steindir (5 tegundir); og hugsanlegar nýjar steindir (16 tegundir).

Þær tvær steindategundir sem þegar hafa öðlast viðurkenningu sem nýjar heimssteindir eru frá Eldfelli og Heklu. Önnur þeirra er eldfellít, NaFe(SO4)2, fannst í norðausturrima Eldfells. Það kristallast mónóklínt, kristallarnir eru gulgrænir og plötulaga, meðalstærð þeirra er aðeins 15x3 míkrómetrar. Hin steindin er heklaít, KNaSiF6, sem fannst í austurgossprungunni sem var virk í Heklugosinu 1991. Það kristallast rombískt, kristallarnir eru litlausir og meðalstærð þeirra er 40x20 míkrómetrar.


Eldfellít, sýni NI 13556, frá toppi Eldfells í Vestmannaeyjum. Sýnin eru blanda af eldfellíti (gulgrænt), tamarugíti og óþekktri steind. Rauði liturinn stafar af næfurþunnri skán af hematíti.



Heklaít, sýni NI 15513, frá norðausturgossprungu Heklu. Sýnið er blanda af heklaíti (hvítt), ralstoníti, malladríti, hieratíti og tveimur óþekktum steindum.

Alls greindist 51 tegund steinda meðal útfellinganna, 32 þeirra höfðu ekki áður fundist hér á landi. Í gagnagrunni Náttúrufræðistofnunar Íslands voru skráðar 230 íslenskar steindategundir og þá eru afbrigði ekki talin með. Nú eru tegundirnar 262 og er hér því um verulega aukningu í fjölda íslenskra steindategunda að ræða.

Þegar menn telja sig hafa fundið nýja, áður óþekkta steind, er þess krafist að henni sé lýst nákvæmlega og eftir settum reglum. Innan Alþjóðasambands um steindafræði (International Mineralogical Association) er framkvæmdanefnd (Commission on New Minerals, Nomenclature and Classification) sem síðan metur hvort um nýja heimssteind er að ræða.

Þetta er í fyrsta sinn sem steindategundir fá nafn eftir íslenskum stöðum. Áður hefur steindategund verið látin heita eftir íslenskum manni þegar danskur steindafræðingur lýsti, árið 1917, sérkennilegu sýni frá Teigarhorni í Berufirði. Þetta var talin ný steindategund og látin heita eftir Hrafna-Flóka og kölluð flókít. Nokkrum árum seinna leiddu öruggari greiningar hins vegar í ljós að hér var í raun um mordenít að ræða.