Ferðalangur froskur í heimsókn

27.04.2009

Til landsins berast stundum fyrir slysni furðuskepnur frá nágrannalöndum eða enn lengra að. Skriðdýr og froskdýr vekja alltaf athygli. Nýlega barst myndarlegur og skrautlegur froskur óvart með ferðamanni frá Tælandi. Hann var færður Náttúrufræðistofnun Íslands til skoðunar. Við leit að upplýsingum á Alnetinu fundust á honum deili.

Froskurinn tilheyrir tegundinni Kaloula pulchra, kallast á ensku m.a. Asian painted frog og Banded bull frog, tilheyrir ættinni Microphilidae og er áþekkur körtum (Bufonidae). Þetta er hin snotrasta skepna og það er líkast því að bleik rönd hafi verið máluð á hliðar hans. Tegundin er útbreidd í Suðaustur-Asíu, frá Nepal og NA-Indlandi um Myanmar og Tæland til S-Kína, Singapore, Súmötru, Borneó og Súlawesi. Einnig hafa froskar af þessu tagi þvælst með mönnum til Ástralíu og Nýja-Sjálands.

Froskurinn Kaloula pulchra sem barst til Íslands með farangri ferðamanns frá Tælandi 23. apríl 2009. Ljósm. Erling Ólafsson.

Tegundin athafnar sig einkum eftir fyrstu monsúnrigningarnar í apríl og maí, en þá kallast kynin á og makast. Froskarnir lifa ekki í vatni. Þeir dyljast í rökum gróðri og mosa m.a. í skógarbotnum og á hrísgrjónaökrum, jafnvel inni á frumstæðum heimilum. Þeir eru á stjái einkum á kvöldin og veiða þá smádýr af flestu tagi sér til lífsviðurværis. Tegundin er vinsælt gæludýr og fara fram umtalsverð viðskipti með hana á þeim oft vafasama markaði. Hér má fræðast enn frekar um froskinn þann.