Nýrri tegund, skorpuskeðju, lýst frá Íslandi
Skorpuskeðja, Placopyrenium formosum, er hrúðurflétta af svertuætt (Verrucariaceae). Af skeðjum, Placopyrenium, eru til ellefu tegundir í heiminum en þetta er fyrsta tegund ættkvíslarinnar sem finnst á Íslandi. Tegundinni er lýst af Alan Orange, breskum fléttufræðingi, sem safnaði henni þegar hann tók þátt í ráðstefnu um svertuætt sem haldin var á Akureyri í júní 2007. Tegundinni lýsti Alan í tímaritinu “Lichenologist”, sem er nýkomið út.
Skorpuskeðja hefur lífsferil sinn sem sníkill á flúðaskorpu (Aspicilia aquatica) en myndar síðar sjálfstætt þal. Efra borð þalsins er brúnleitt eða grábrúnt, reitskipt með skjóðumunna sýnilega sem svarta depla. Askgró eru 17,5–22,5 x 8–10 μm að stærð, einföld og glær þó ofþroskuð gró geti verið brúnleit. Pyttlur eru tiltölulega sjaldgæfar með pyttlugró sem eru 4–5 x 1 μm.
Skorpuskeðju má finna á klöppum og steinum við ár og læki eða klöppum sem vatn seytlar yfir. Tegundin hefur fundist auk Íslands á Bretlandseyjum, Finnlandi, Frakklandi og Ítalíu.