Nýrri tegund, skorpuskeðju, lýst frá Íslandi

21.04.2009

Skorpuskeðja, Placopyrenium formosum, er hrúðurflétta af svertuætt (Verrucariaceae). Af skeðjum, Placopyrenium, eru til ellefu tegundir í heiminum en þetta er fyrsta tegund ættkvíslarinnar sem finnst á Íslandi. Tegundinni er lýst af Alan Orange, breskum fléttufræðingi, sem safnaði henni þegar hann tók þátt í ráðstefnu um svertuætt sem haldin var á Akureyri í júní 2007. Tegundinni lýsti Alan í tímaritinu “Lichenologist”, sem er nýkomið út.

Skorpuskeðja sem safnað var við Fnjóská í Dalsmynni 2007. Sjá má leyfar af flúðaskorpunni mynda ljósan kraga um skorpuskeðjuna sem byrjar sem sníkill á flúðaskorpunni, tekur yfir þörunga hennar og drepur hana smám saman. Skorpuskeðjan sjálf er gráleit eða grábrún með reitað þal og sjá má skjóðumunnana sem svarta depla.

Skorpuskeðja hefur lífsferil sinn sem sníkill á flúðaskorpu (Aspicilia aquatica) en myndar síðar sjálfstætt þal. Efra borð þalsins er brúnleitt eða grábrúnt, reitskipt með skjóðumunna sýnilega sem svarta depla. Askgró eru 17,5–22,5 x 8–10 μm að stærð, einföld og glær þó ofþroskuð gró geti verið brúnleit. Pyttlur eru tiltölulega sjaldgæfar með pyttlugró sem eru 4–5 x 1 μm.

Skorpuskeðju má finna á klöppum og steinum við ár og læki eða klöppum sem vatn seytlar yfir. Tegundin hefur fundist auk Íslands á Bretlandseyjum, Finnlandi, Frakklandi og Ítalíu.