Ísland tekur við formennsku í vinnuhóp um vernd lífríkis Norðurslóða

04.05.2009
Ísland tók við formennsku í vinnuhóp Norðurskautsráðsins um vernd lífríkisins (CAFF) á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins, sem haldinn var í Tromsö í Noregi 29. apríl sl. Ævar Petersen, fuglafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, er nýr formaður vinnuhópsins.
Ævar Petersen, nýr formaður vinnuhóps CAFF.

Að sögn Ævars verður unnið að tveimur stórum verkefnum innan CAFF í formennskutíð Íslands 2009-2011. Annars vegar vöktun á líffræðilegum fjölbreytileika á norðurslóðum (Circumpolar Biodiversity Monitoring Program), sem m.a. á að vakta áhrif loftslagsbreytinga á vistkerfið, en loftslagsbreytingar eru örari á Norðurskautssvæðinu en á flestum öðrum stöðum á jörðinni. Hins vegar er um að ræða stöðuskýrslur um líffræðilegan fjölbreytileika (Arctic Biodiversity Assessment). Skýrslurnar verða notaðar í vinnu við að hamla gegn eyðingu líffræðilegrar fjölbreytni sem ýmsir alþjóðasamningar fjalla um. Tveir sérfræðingahópar starfa á vegum CAFF, annar um gróður á norðurslóðum og hinn um sjófugla.

Fundurinn í Tromsö var 7. ráðherrafundur Norðurskautsráðsins, en þeir eru haldnir á tveggja ára fresti. Að þessu sinni sótti Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, félagsmálaráðherra, fundinn fyrir Íslands hönd. Átta ríki eiga sæti í Norðurskautsráðinu, auk fulltrúa samtaka frumbyggja. Sex vinnuhópar starfa á vegum Norðurskautsráðsins, flestir á sviði umhverfisverndar og eru skrifstofur tveggja þeirra á Íslandi, nánar tiltekið á Akureyri. Auk CAFF er þar líka skrifstofa PAME, starfshóps um verndun umhverfis hafsins.

PAME kynnti á fundinum nýja úttekt á siglingum, sem sýnir að skipaumferð hefur vaxið verulega á Norðurslóðum og mun væntanlega halda áfram að vaxa, þ.á m. á sjálfu N-Íshafinu þvert yfir Norðurpólinn. Einnig er í skýrslu PAME að finna ýmsar tillögur um hvernig auka megi öryggi varðandi siglingar á svæðinu og efla viðbúnað við hugsanlegum óhöppum.