Surtarbrandur fjarlægður án leyfis

13.05.2009

Vegna fréttar um surtarbrand sem birtist í sjónvarpsfréttum RÚV þann 11. maí síðastliðinn vill Náttúrufræðistofnun vekja athygli á öðrum málslið 40. gr. laga um náttúruvernd nr. 44/1999. Þar segir: „Óheimilt er að nema brott eða losa steingervinga af fundarstað. Umhverfisráðuneytið getur þó að fenginni umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands veitt undanþágu frá ákvæði þessu í þágu jarðfræðirannsókna.“ Náttúrufræðistofnun lítur það alvarlegum augum að surtarbrandurinn hafi verið fjarlægður án leyfis og að fjölmiðlar sýni lögbrot „í beinni útsendingu“.

Náttúrufræðistofnun vill einnig vekja athygli á því að vitneskja um setlögin sem rætt er um í fréttinni eru ekki ný af nálinni, en þau hafa lengi verið þekkt og margt verið skrifað um þau í vísindaritum. Aldur setlaganna er talinn vera um 15 milljón ár. Þau koma fram á útskögum Vestfjarða í norðvestri og eru aðgengileg á mörgum stöðum frá Selárdal í Arnarfirði í suðri til Hornstranda í norðri. Plöntusamfélögum þeirra hefur verið lýst og ályktanir dregnar um gróðurfar og loftslag þeirra tíma, en allt bendir til þess að hér hafi þá verið heittemprað og rakt loftslag (Friðgeir Grímsson o.fl. 2007). Það er því ekki ný vitneskja að stór tré hafi vaxið á því svæði sem nú myndar Vestfirði fyrir um 15 milljón árum. Leifar vatnafuru (Glyptostrobus europaeus), fornrauðviðar (Sequoia abietina) og arnarbeykis (Fagus friedrichii) hafa m.a. fundist á þessum slóðum.

Í Náttúrugripasafni Náttúrufræðistofnunar var í áratugi til sýnis útflattur trjábolur, surtarbrandur, frá Helgafelli í Dýrafirði (til vinstri á myndinni). Hann er úr sömu setlagasyrpu og myndaður á sama tíma og surtarbrandurinn í Bolungarvík, eða fyrir um 15 milljón árum. Ljósm. Kjartan Birgisson.


  • Heimild: Friðgeir Grímsson, Leifur A. Símonarson og Thomas Denk 2007. Elstu flórur Íslands. Náttúrufræðingurinn 75 (2-4), bls. 85-106.