Vistgerðir á miðhálendi Íslands - nýútkomin skýrsla

22.06.2009
Á síðustu tíu árum hefur Náttúrufræðistofnun Íslands unnið að því að flokka og lýsa vistgerðum á miðhálendi Íslands. Rannsökuð hafa verið átta svæði um 6500 km² að flatarmáli eða um 6% af landinu öllu. Alls hafa verið skilgreindar 24 vistgerðir. Stofnunin gaf nýlega út niðurstöður þessara rannsókna í sérstakri skýrslu. Þar er einkennum vistgerðanna lýst, svo sem gróðri, fuglalífi og smádýralífi og verndargildi metið.

Í Evrópu og víðar hefur verið unnið að því að flokka land í vistgerðir einkum vegna náttúruverndar og til að bæta stjórn landnýtingar. Hér á landi hefur verið áhugi fyrir að taka upp sambærilegar vinnuaðferðir og hóf Náttúrufræðistofnun rannsóknir á íslenskum vistgerðum árið 1999. Rannsóknirnar hafa til þessa einkum verið unnar í tengslum við Rammaáætlun um vernd og nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Megintilgangur þeirra er að kanna hvaða vistgerðir eru hér á landi, lýsa þeim og skilgreina og þróa aðferðir til að meta verndargildi þeirra.

Áhersla var lögð á að rannsaka vistgerðir hálendisins og hafa þær verið unnar í þremur áföngum. Í fyrsta áfanga var land á Vesturöræfum og Brúardölum í Norður-Múlasýslu og á Hofsafrétt í Skagafirði flokkað. Í öðrum áfanga voru rannsakaðir afréttir Skaftártungu og Síðumanna og svæði í Möðrudal og Arnardal í Norður-Múlasýslu. Í þriðja áfanga voru fjögur svæði rannsökuð til viðbótar, þ.e. Þjórsárver, svæði meðfram Skjálfandafljóti, svæði á Kili og Guðlaugstungum og síðan svæði við Markarfljót hjá Emstrum. Í skýrslunni eru birtar niðurstöður flokkunar á öllum þeim svæðum sem rannsökuð hafa verið til þessa.

Staðsetning rannsóknasvæða á miðhálendi Íslands.

Við úrvinnslu og tölfræðilega flokkun gróðurgagna voru ákvarðaðar 24 vistgerðir og þeim skipað í fimm meginflokka eða vistlendi. Í eyðilendi eru eyravist, eyðihraunavist, grasmelavist, eyðimelavist og sandvikravist. Í moslendi eru melagambravist, breiskjuhraunavist og hélumosavist. Í mólendi eru víðimóavist, lyngmóavist, giljamóavist, starmóavist, fléttumóavist, mosamóavist og víðikjarrvist. Í rýru votlendi eru rekjuvist, móarekjuvist, rústamýravist, lágstaraflóavist og sandmýravist. Í ríku votlendi eru runnamýravist, hástaraflóavist og starungsmýravist.Breiskjuhraunavist við Skaftá á Skaftártunguafrétti 2001. © Sigurður H. Magnússon Víðimelavist á Kili
Breiskjuhraunavist við Skaftá. Ljósm. SHM. Víðimelavist á Kili. Ljósm. SHM.


Rústamýravist í Þjórsárverum Víðikjarrvist við Skjálfandafljót
Rústamýravist í Þjórsárverjum. Ljósm. SHM. Víðikjarrvist við Skjálfandafljót. Ljósm. SHM.

Mikill munur var á gróðurþekju, tegundasamsetningu og tegundafjölda plantna í vistgerðum. Meginbreytileiki gróðurs tengdist raka og jarðvegsgerð. Tegundaauðgi plantna er að jafnaði mest í mólendi en minnst í eyðilendi. Smádýrafána endurpeglaði í stórum dráttum gróður í vistlendum. Smádýralíf var fjölbreyttast í mólendisvistum en einna fábreyttast í votlendi. Mófuglar í hálendinu reyndust vera fremur ósérhæfðir í búsvæðavali. Flestar tegundir fundust í varpi í allmörgum vistgerðum og heiðlóa í þeim öllum. Þéttleiki fugla ákvarðast í grófum dráttum af grósku vistlenda og yfirleitt var fuglavarp mest í votlendisvistum.

Rústamýravist og breiskjuhraunavist voru taldar hafa hæst verndargildi allra vistgerða á miðhálendinu.

Skýrslan á pdf-formi (30 MB).