Fræðist um pöddurnar okkar

14.08.2009

Áhugi landsmanna á náttúru landsins hefur aukist mikið í seinni tíð. Sífellt fleiri gefa fuglum og plöntum gaum og bækur með fróðleik um náttúruna njóta ávallt vinsælda. Haldbær fróðleikur um pöddurnar okkar er fátæklegur og full þörf er á að bæta úr því. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur nú opnað aðgang að fróðleikspistlum um pöddur á vef stofnunarinnar í von um góðar viðtökur náttúruunnenda.

Árið 2002 var gefin út bókin Dulin veröld sem vakti athygli, enda fyrsta bók sem gefin var út á íslensku til að veita innsýn í hinn dulda heim smádýranna á Íslandi. Betur má gera ef duga skal í þessum efnum og því var ákveðið að hefja frekari kynningu á þessum áhugaverðu dýrum hér á vef Náttúrufræðistofnunar.

Markmiðið er að koma á framfæri fróðleikspistlum um valdar tegundir smádýra á landi og í vötnum hér á landi. Um er að ræða smádýr af fylkingum liðdýra, lindýra og liðorma sem fólk gjarnan kallar pöddur í daglegu tali. Lagt verður upp í vegferðina með pistla um 80 tegundir af ýmsu tagi, þ.e. skordýr, áttfætlur, snigla og ánamaðka. Nýir pistlar munu svo bætast við reglulega.

Roðageitungurinn fágæti, fundinn í Fossvogi 2008. Ljósm. Erling Ólafsson.
Roðageitungurinn fágæti, fundinn í Fossvogi 2008. Ljósm. Erling Ólafsson.
Járnsmiður, Nebria rufescens, er mjög algengur á láglendi á Íslandi. Ljósm. Erling Ólafsson. Lyngbobbi, Arianta arbustorum, er ein tegundanna sem fræðast má um á vef Náttúrufræðistofnunar. Ljósm. Erling Ólafsson.

Fjallað verður um pöddur af ýmsu tagi, tegundir sem lifa í íslenskri náttúru og görðum landsmanna, híbýlum og gripahúsum, útlendar tegundir sem flækjast til landsins með vindum, svo og tegundir sem slæðast með varningi. Pistlunum er komið fyrir í ofangreindum efnisflokkum til að einfalda aðganginn. Auk þess verður síðar komið fyrir ábendingarhnappi á upphafssíðu sem vísar á nýjustu viðbætur til að létta undir með þeim sem fylgjast með reglulega.

Sagt er frá útbreiðslu tegundanna utan lands sem innan, lífsháttum þeirra og ýmsum öðrum fróðleik sem kann að vekja áhuga. Umfjöllunin er að hluta til stöðluð en tegundir gefa vissulega misjafnt tilefni til málalenginga, t.d. liggur fyrir misgóð þekking á lífsháttum.

Textana semur Erling Ólafsson, skordýrafræðingur á Náttúrufræðistofnun, og eru þeir byggðir á innlendum sem erlendum heimildum og upplýsingum sem varðveittar eru í gagnagrunni stofnunarinnar. Erling vinnur markvisst að því að ljósmynda pöddurnar og koma sér upp myndabanka með pöddumyndum. Val tegunda til kynningar ræðst að miklu leyti af myndum sem fyrir liggja.

Í flýtivali hér til vinstri er hægt að fara beint inn á pödduvefinn.