Nýr pípusveppur, kornasúlungur, finnst á Íslandi

21.08.2009

Kornasúlungur, Suillus granulatus, fannst í Miðhálsstaðaskógi í Öxnadal fyrr í mánuðinum. Þetta er fyrsti staðfesti fundur tegundarinnar hér á landi. Sveppurinn er pípusveppur og finnst víða í Evrópu þar sem hann vex með furu í frekar frjóum jarðvegi. Kornasúlungur er prýðilegur matsveppur.

Sveppafræðingur Náttúrufræðistofnunar, Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir, fann sveppinn í matsveppaleiðangri í skóginn þann 17. ágúst síðastliðinn. Vikurnar á undan hafði rignt nokkuð eftir afar þurran júlímánuð og voru lerkisveppur og furusveppur sprottnir í miklu magni víða í Eyjafirði, þ.á m. í Miðhálsstaðaskógi sem er reitur í umsjón Skógræktarfélags Eyfirðinga í landi eyðibýlisins Miðhálsstaða í Öxnadal. Í mólendi þar sem ungar stafafurur, um 2 m á hæð, uxu neðan við eldri barrtré var slæðingur af ungum furusvepp en kringum eina furuna voru mun minni og ljósbrúnni sveppir í snyrtilegum baug. Þegar kannað var um hvaða svepp var að ræða kom í ljós að þetta var kragalaus pípusveppur með mjólkurlita dropa á pípulaginu og þar með ekki nein þeirra tegunda pípusveppa sem fundist hafa hérlendis til þessa.

Kornasúlungur - Suillus granulatus Kornasúlungur - Suillus granulatus
Kornasúlungur, Suillus granulatus, á fundarstað í Miðhálsstaðaskógi. Ljósm. Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir. Kornasúlungur, Suillus granulatus. Mjólkurlitaðir dropar sitja á ungu pípulaginu. Ljósm. Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir.

Þessi smávaxni pípusveppur reyndist vera Suillus granulatus (L.: Fr.) Roussel, kornasúlungur, sem myndar svepprót með tveggja nála furum. Hatturinn var 20-40 mm á breidd og aldinið 35-50 mm á hæð. Hatturinn var ljósrauðbrúnn á lit, hálfkúlulaga fyrst en varð síðan hvelfdur, hatthúðin rök án þess að vera áberandi slímug og hægt var að losa hana frá hattholdinu sem var daufgult á litinn. Pípulagið var frekar þunnt og með sterkari gulum lit en hattholdið. Ungar pípur voru svo grannar að op þeirra sáust varla en pípulagið var þakið samlitum kornum og á því sátu mjólkurlitaðir dropar. Þegar aldinin stækkuðu urðu pípuopin fyrst reglulega hringlaga en síðar svolítið köntuð og pípuendarnir sátu örlítið mishátt í laginu. Stafurinn var gulhvítur og með kirtilkorn sem fyrst voru samlit honum en urðu síðan eins og örlitlir brúnir deplar á gulhvítum stafnum sem var 20-30 mm langur og 8-12 mm breiður og nokkuð jafn. Neðsti hluti stafs varð brúnn og stafurinn var án kraga. Lykt var dauf sem og bragð.

Nærmynd af pípulagi þar sem kornin sjást frá staf og út að barði. Ljósm. Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir.

Kornasúlungs er getið í ferðadagbók Morten Lange, dansks sveppafræðings, sem rannsakaði fungu Suðurlands fyrir réttum 50 árum og fann eitt aldin þeirrar tegundar í gamla barrskógarreitnum við Rauðavatn í Reykjavík þann 1. september 1959. Þar sem því aldini var ekki safnað var ekki unnt að staðfesta fund tegundarinnar hérlendis.

Kornasúlungur vex með furu í frekar frjóum jarðvegi, er ekki sérlega algengur í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi, fátíður í Danmörku og verður sjaldgæfur til fjalla og þegar norðar dregur í Skandinavíu. Hann verður mun stærri en aldinin sem hér fundust eða u.þ.b. 80 mm breiður á hattinn og 100 mm hár og er prýðilegur matsveppur þegar búið er að fjarlægja hatthúðina.