Bernarsamningurinn 30 ára

18.09.2009

Á morgun, 19. september, eru 30 ár liðin frá undirritun Bernarsamningsins um verndun villtra dýra og plantna og búsvæða í Evrópu. Meginmarkmið Bernarsamnings er að vernda evrópskar tegundir villtra plantna og dýra og vistgerða sem eru verndarþurfi að mati aðildarríkjanna, einkum þær sem þarfnast fjölþjóðlegrar samvinnu.

Smellið á mynd til að fá nánari upplýsingar um Bernarsamninginn.

Náttúrufræðistofnun fer með framkvæmd Bernarsamningsins um vernd plantna og dýra og búsvæða þeirra í Evrópu. Samningurinn var gerður árið 1979 en staðfestur hér á landi árið 1993. Samningurinn er vistaður hjá Evrópuráðinu og 48 ríki í Evrópu og Norður Afríku eru nú aðilar að honum auk Evrópusambandsins. Bernarsamningurinn hefur haft mikil áhrif á náttúruverndarlöggjöf aðildarríkjanna og hvernig staðið er að því að skrá, flokka, meta og vakta lifandi náttúru. Náttúrufræðistofnun sækir aðildarríkjafundi samningsins og tekur þátt í störfum undirnefnda sem mikilvægar eru fyrir Ísland. Þar má nefna sérfræðinganefnd um net náttúruverndarsvæða, Emerald Network, nefnd um ágengar innfluttar tegundir, um jarðminjar og um hryggleysingja. Á árinu 2008 var gefinn út nýr sáttmáli um veiðar og vernd líffræðilegrar fjölbreytni í samvinnu við ýmis félagasamtök.

Eitt af þeim málefnum sem líkleg eru til að skipta verulegu máli í framtíðinni er hvernig bregðast megi við áhrifum loftslagsbreytinga á líffræðilega fjölbreytni. Á vegum Bernarsamningsins er þegar hafin vinna á þessu sviði. Afar mikilvægt er að samræma viðbrögð landa í Evrópu við breytingum sem kunna að verða hvort sem löndin eru utan eða innan Evrópusambandsins.

Forstjóri Náttúrufræðistofnunar, Jón Gunnar Ottósson, hefur verið aðalfulltrúi Íslands frá 1993 og verið varaforseti samningsins 2004-2007 og forseti hans síðan 2007. Hann situr jafnframt í stjórn náttúruverndarnefndar Evrópuráðsins. Trausti Baldursson situr fundi samningsins sem fulltrúi Íslands. Ýmsir sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar sækja fundi vísindanefnda.

Í tilefni 30 ára afmælisins mun ársfundur aðila samningsins verða haldinn í Bern í Sviss, dagana 23. til 26. nóvember 2009. Nánari upplýsingar er hægt að nálgast á vef Bernarsamningsins.