Að spyrja Náttúruna - saga Náttúrugripasafnsins

26.10.2009
Tígrisdýr
Mynd: Anette Th. Meier

Einn eftirminnilegasti gripurinn sem til sýnis var í Náttúrugripasafninu á tímum þess í Safnahúsinu er tígrisdýrið. Það er komið aftur í húsið á sýninguna.

Náttúrufræðistofnun minnir á sýningu sína „Að spyrja Náttúruna – saga Náttúrugripasafnsins“, sem stendur nú yfir í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu. Sýningin segir sögu safnsins frá því það var stofnsett árið 1889 þar til því var lokað tímabundið fyrir almenningi árið 2008. Blómaskeið safnsins var á fyrstu áratugum 20. aldar þegar það var til húsa í Þjóðmenningarhúsinu, sem þá hét Safnahúsið.

Sýningin var opnuð í Þjóðmenningarhúsinu á aldarafmæli þess, þann 28. mars síðastliðinn. Á sýningunni er að finna upplýsingar um sögu safnsins, frumkvöðla að stofnun þess og forstöðumenn, ásamt því að þar er að finna ýmsa náttúrugripi og aðra muni úr sögu safnsins, s.s. geirfugl, tígrisdýr, silfurberg, gróðursýni og apa.

Náttúrugripasafnið í Þjóðmenningarhúsi
Mynd: Náttúrufræðistofnun Íslands

Séð yfir hluta af sýningarsal Náttúrugripasafnsins eins og hann leit út á fyrstu tímum safnsins í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Salurinn var opnaður árið 1908 og þarna má sjá ýmsa náttúrugripi, bæði úr jurta- og dýraríkinu. Ljósm. August Hesselbo, 1914.

Ad-spyrja-Natturuna_Preparations
Mynd: Anette Th. Meier

Á sýningunni er að finna fjöldann allan af gripum úr sögu safnsins. 

Sýningin hefur notið mikilla vinsælda síðan hún opnaði, sérstaklega meðal yngri kynslóðanna. Hópar leikskóla- og skólabarna hafa heimsótt sýninguna í stórum stíl. Þjóðmenningarhúsið býður upp á leiðsögn fyrir þessa hópa og aðra.

Teiknimyndasamkeppni þar sem verðlaun fyrir bestu tígrisdýramyndina verða veitt í lok ársins stendur nú yfir. Þátttakendur í samkeppninni geta sent myndir sínar til Náttúrufræðistofnunar Íslands, Hlemmi 3, 125 Reykjavík, með nafni, símanúmeri/netfangi og aldri.

Þjóðmenningarhúsið er opið alla daga milli kl. 11 og 17. Ókeypis er fyrir börn og frítt fyrir alla á miðvikudögum.