Síðasta sýningarhelgi; Að spyrja Náttúruna - saga Náttúrugripasafnsins
Síðasta sýningarhelgi Að spyrja Náttúruna – saga Náttúrugripasafnsins er komandi helgi. Á sýningunni er að finna fjölda uppstoppaðra dýra frá öllum heimshornum auk annarra náttúrugripa og muna úr sögu Náttúrugripasafnsins, s.s. geirfuglinn, tígrisdýr, eðlur, froska, apa, kristalla, gróðursýni, og svo mætti lengi telja. Sýningin var sett upp í Þjóðmenningarhúsinu af Náttúrufræðistofnun Íslands í mars sl. til að minnast 100 ára afmælis starfsemi í Þjóðmenningarhúsinu en blómaskeið Náttúrugripasafnsins stóð yfir þá áratugi sem Safnahúsið, eins og húsið var gjarnan nefnt þá, hýsti starfsemina eða frá opnun hússins 1909 til ársins 1960.
Framsetning er í anda sýninga frá fyrri hluta síðustu aldar; uppstoppuðum dýrum er stillt upp án frekari skýringa eða samhengis. En nálægðin við hin framandi og merkilegu dýr heillar jafnt unga sem aldna. Sýningin hefur reynst sérlega skemmtileg fyrir leikskólanemendur og nemendur yngsta stigs grunnskóla sem hafa flykkst á sýninguna í skipulögðum heimsóknum. Á þessum fáu mánuðum sem sýningin hefur staðið hafa yfir 3.000 nemendur heimsótt hana í fylgd kennara sinna og glímt við nokkrar léttar rannsóknarspurningar um dýrin og teiknað uppáhaldsdýrið sitt.
Einn eftirminnilegasti gripurinn sem til sýnis var í Náttúrugripasafninu á tímum þess í Safnahúsinu er tígrisdýrið og er það einmitt á sýningunni nú. Náttúrufræðistofnun efndi til samkeppni um bestu teikninguna af tígrisdýri og úrval teikninga sem bárust í samkeppnina verður sýnt síðustu sýningarhelgina, 16. – 17. janúar, í tengslum við afhendingu verðlauna og viðurkenningarskjala sem fram fer á laugardaginn kl. 14.