Eyjafjallajökull - Eldvirkni á Fimmvörðuhálsi á nútíma
Eldgos hófst á norðanverðum Fimmvörðuhálsi um kl. 23 laugardaginn 20. mars og stendur enn þegar þetta er ritað. Jarðeldurinn kemur í kjölfar mikillar skjálftavirkni undir Eyjafjallajökli undanfarnar þrjár vikur. Svipaðar hrinur jarðskjálfta hafa orðið undir Eyjafjallajökli frá árinu 1994 samfara landrisi. Ungar gosminjar hafa lengi verið þekktar á Fimmvörðuhálsi, þó jarðvísindamenn hafi greint á um aldur þeirra. Þó að minni jöklar á kuldatímabilum á nútíma hafi farið yfir þær eru þar heillegir gjallgígar og lítt rofin hraun sem ólíklegt verður að teljast að gætu staðist rofmátt ísaldarjökuls. Gos þessi hafa öll verið frekar lítil. Ekki er vitað hvort gosið hefur í jökli á sama tíma.

„Fimmvörðuháls er eldbrunninn og virðist sem a.m.k. 6–8 gos hafi runnið þar eftir að jöklar síðasta jökulskeiðs hurfu af svæðinu. Ekki er líklegt eftir útliti þeirra að dæma að þessar myndanir séu eldri, eða frá því að jökull lá yfir svæðinu allt til sjávar. Hafi Fimmvörðuháls orðið íslaus á síðasta jökulskeiði og þessar myndanir eru allar frá þeim tíma mætti ætla að jökulrofs myndi gæta mun meira á hraununum en raun ber vitni. Því má álykta að Fimmvörðuháls hafi verið eldvirkur á fyrri hluta nútíma og þar megi því vænta eldgosa í framtíðinni“ (Helgi Torfason og Höskuldur Búi Jónsson 2005). Áður höfðu meðal annarra Sveinn Jakobsson og Jón Jónsson fjallað um þessar myndanir og talið þær frá nútíma.
Starfsmenn Náttúrufræðistofnunar fóru á vettvang 22. mars og tóku meðfylgjandi myndir:



Heimildir:
Helgi Torfason og Höskuldur Búi Jónsson 2005. Jarðfræði við norðvestanverðan Mýrdalsjökul. Í: Hættumat vegna eldgosa og hlaupa frá vestanverðum Mýrdalsjökli og Eyjafjallajökli. Ritstjórn Magnús T. Guðmundsson og Ágúst G. Gylfason. Ríkislögreglustjórinn, Háskólaútgáfan 2005.
Jón Jónsson. 1998. Eyjafjöll. Drög að jarðfræði. Rannsóknastofnunin Neðri Ás, No.53, 111 s, Hveragerði.
Sveinn P. Jakobsson. 1979. Petrology of recent basalts of the Eastern Volcanic Zone, Iceland. Acta Naturalia Islandica 26, 103 s, Reykjavík.