Laussvæfir geitungar á útmánuðum

15.03.2010

Borið hefur á því að geitungar hafi rumskað af vetrarsvefni nú á útmánuðum 2010 í meiri mæli en áður hefur vitnast en slíkt svefnrask hefur heyrt til undantekninga á þessum árstíma. Er einstök veðurblíða ástæðan eða er orsökin sú að óvenju margar drottningar bíða nú vorsins? Það mun væntanlega koma í ljós í sumar.

Holugeitungur (Vespula vulgaris), árrisul drottning í Hafnarfirði 10. mars 2010. Ljósm. Erling Ólafsson.

Nú þegar hafa Náttúrufræðistofnun Íslands borist átta tímasettar tilkynningar um árrisula geitunga og hafa eintök fylgt fimm þeirra. Þau reyndust öll vera holugeitungar (Vespula vulgaris), drottningar að sjálsögðu því einungis slíkar sofa yfir vetur til komandi vors. Einnig hefur heyrst af fleiri ótímasettum og óstaðfestum tilvikum.

Staðfestar tilkynningar eru sem hér segir:

  • 9. janúar. Tveir geitungar tóku að flögra um í uppsökusal Rúv Sjónvarps þegar atkvæðagreiðsla fór þar fram um sigurlag sem verða skyldi framlag Íslands til keppni í Eurovision söngvakeppninni í Noregi í vor. Efni í innréttingar salarins hafði verið tekið inn úr kulda og hafa kvikindin væntanlega borist með því og rumskað í sviðsljósinu. Ekki fylgdi sögunni hvort geitungarnir hafi náð að greiða atkvæði eða haft nokkur önnur áhrif á úrslit! Eintökin fylgdu ekki tilkynningunni og er tegundin því óstaðfest.
  • 30. janúar. Holugeitungur fannst í glugga húss við Laugarnesveg í Reykjavík.
  • 17. febrúar. Holugeitungur féll niður á gólf af háalofti húss í Hafnarfirði. 
  • 8. mars. Ógreindur geitungur rataði sömu leið og sá síðastnefndi inn í íbúð í Smáíbúðahverfi í Reykjavík. Í loftinu sem aðskildi svefnherbergi hjóna frá háalofti var óþétt rafmagnsdós. Svo illa vildi til í þessu tilviki að hann féll ofan í svefnfleti hjóna og varð valdur að illa þokkuðu rúmruski er frúin lagðist á bólfélagann óvænta. Sá snérist til varnar snarlega með því tóli sem hann kann best að beita.
  • 10. mars. Holugeitungur kom inn um opnar svaladyr á heimili skordýrafræðings NÍ í Hafnarfirði. 
  • 12. mars. Holugeitungur barst inn í hús við Bleikargróf í Reykjavík.
  • 13. mars. Holugeitungur fannst í glugga húss við Hólmgarð í Reykjavík.
  • 14. mars. Ógreindur geitungur kom inn í hús við Hlíðarveg í Kópavogi. Sá fékk óblíðar móttökur og ferðalag að auki eftir lagnakerfi bæjarins til sjávar.

Það verður spennandi að fylgjast með því hvort áframhald verður á þessu óvenjulega ástandi hjá geitungunum okkar til vors en að öllu eðlilegu hefðu kvikindin átt að sofa værum og óröskuðum vetrarblundi fram í miðjan maí. Tilkynningar um árrisula geitunga, tímasettar og eintökin helst meðfylgjandi, verða vel þegnar hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.

Sjá umfjöllun um holugeitunga á vef stofnunarinnar