Eldfjallaútfellingar frá nýju gosstöðvunum á Fimmvörðuhálsi

20.05.2010

Í eldgosum, eða í kjölfar þeirra, myndast ýmiss konar útfellingar. Þessar eldfjallaútfellingar mynda skánir á yfirborði hrauna, í hraunhellum eða við gígop. Flestar útfellinganna verða til beint úr hraunkvikugasi sem streymir út um op í kólnandi berginu. Útfellingasteindirnar ralstónít, HD og thenardít eru meðal þeirra tegunda sem myndast hafa á hrauni sem rann í Fimmvörðuhálsgosinu.

Samsetning eldfjallaútfellinganna úr Fimmvörðuhálsgosinu var rannsökuð með röntgenbrotgreiningu (XRD). Greiningarnar framkvæmdi Tonci Balić-Zunić við Geologisk Museum, Kaupmannahafnarháskóla. Eftirfarandi tegundir steinda hafa til þessa verið greindar:

 

  • Ralstonít NaXMgXAl2-X(F,OH)6·H2O. Sýnið (NI24425) tók Ásgeir Einarsson í Hrunagili 13. apríl 2010 (sjá mynd). Ralstonít er algeng eldfjallaútfelling í Heklu, og hefur einnig fundist í Surtsey og Eldfelli á Heimaey (Sveinn P. Jakobsson o.fl. 2008). Þessi steind er gul eða gulbrún á litinn og er algengt að menn telji þetta vera brennistein.
  • Steindin HD. Þessi steind er ljósbrún og hefur líklega efnasamsetninguna NH4(Fe,Co)2F6. Hún greindist í sama sýni og ralstonítið. Steindin HD hefur áður fundist í Surtsey, Eldfelli og Heklu. Hér er um að ræða nýja steind fyrir vísindin sem ekki hefur enn verið endanlega skilgreind.
  • Thenardít Na2SO4. Sýnið (NI24427) tók Kristján Jónasson 1. apríl 2010. Þessi útfelling er snjóhvít og virðist hafa myndast víða á Fimmvörðuhálshrauninu. Thenardít leysist fljótlega upp í úrkomu þegar bergið kólnar. Thenardít var algengt í Surtsey og hefur einnig fundist áður í Eldfelli.

 

Rauðhumla er auðþekkt og ólík þeim þrem humlutegundum sem fyrir voru á landinu, þar sem hún er ekki gul- og svartröndótt. Myndin var tekin í Reykjavík árið 2009 og sýnir drottningu, 17 mm að stærð. Ljósm. Erling Ólafsson.
Rauðhumla er auðþekkt og ólík þeim þrem humlutegundum sem fyrir voru á landinu, þar sem hún er ekki gul- og svartröndótt. Myndin var tekin í Reykjavík árið 2009 og sýnir drottningu, 17 mm að stærð. Ljósm. Erling Ólafsson.
Útfellingar á hraungjalli í Hrunagili, 13. apríl 2010. Merkt er við molann sem tekinn var með rauðum hring. Ljósm. Ívar Örn Benediktsson. Hraunjaðar á Fimmvörðuhálsi, 1. apríl 2010. Snjóhvítar skánir sjást víða á hrauninu. Ljósm. Kristján Jónasson.

 

Í Surtsey, Eldfelli og Heklu hafa á undanförnum árum fundist margar tegundir útfellinga. Þar hafa greinst 27 tegundir steinda sem ekki voru áður þekktar í náttúrunni. Tvær tegundanna hafa þegar verið samþykktar sem nýjar steindir fyrir vísindin af Alþjóða Steindafræðisambandinu (IMA), eldfellít NaFe(SO4)2 og heklaít KNaSiF6. Eldfellít fannst í Eldfelli á Heimaey, og heklaít í aðalgosprungunni sem var virk í Heklugosinu 1991.

 

Heimildir:

S.P. Jakobsson, E.S. Leonardsen, T. Balić-Zunić og S.S. Jónsson 2008. Encrustations from three recent volcanic eruptions in Iceland: The 1963-1967 Surtsey, the 1973 Eldfell and the 1991 Hekla eruptions. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 52, 65 bls.

T. Balić-Zunić, A. Garavelli, P. Acquafredda, E. Leonardsen og S.P. Jakobsson 2009. Eldfellite, NaFe(SO4)2, a new fumarolic mineral from Eldfell volcano, Iceland. Mineralogical Magazine 73, 51–57.

A. Garavelli, T. Balić-Zunić, D. Mitolo, P. Acquafredda, E. Leonardsen og S.P. Jakobsson 2010. Heklaite, KNaSiF6, a new fumarolic mineral from Hekla volcano, Iceland. Mineralogical Magazine 74, 45-55.