Rauðhumla - athyglisverður nýr landnemi

19.05.2010

Á undanförnum árum hafa allmargir nýliðar bæst við smádýrafánu landsins og á hlýnandi loftslag þar að öllum líkindum umtalsverðan þátt. Fæstar þeirra vekja athygli almennings enda skaðlausar og hverfa í hópinn sem fyrir er. Aðrar vekja meiri athygli ýmist vegna þess að þær eru ólíkar tegundum sem við eigum að venjast eða fyrir að vera óþokkar og valda skaða og leiðindum. Rauðhumla er nýliði sem sker sig úr hópnum fyrir sérstakt útlit en hún verður seint talin til óþokkanna.

Rauðhumla er auðþekkt og ólík þeim þrem humlutegundum sem fyrir voru á landinu, þar sem hún er ekki gul- og svartröndótt. Myndin var tekin í Reykjavík árið 2009 og sýnir drottningu, 17 mm að stærð. Ljósm. Erling Ólafsson.

Í ágúst 2008 fannst óvenjuleg humla eða hunangsfluga í Keflavík sem reyndist vera rauðhumla (Bombus hypnorum) en sú tegund hafði ekki áður fundist hér á landi. Ekki var loku fyrir það skotið að þar væri á ferð skepna sem slæðst hefði til bæjarins með varningi eða skipi. Ári síðar (2009) fannst svo önnur rauðhumla í vesturbæ Reykjavíkur. Í kjölfarið bárust fregnir af óvenjulegum rauðhumlum sem augljóslega áttu sér bú í garði í Mosfellsdal. Grunsemdir um að tegundin hefði numið hér land urðu sannfærandi þegar drottning rauðhumlu fannst í Hveragerði nú um miðjan maí 2010.

Rauðhumla er háð nábýli við manninn en hún finnur búum sínum oftast stað í húsum og húsveggjum. Ólíkt mörgum ættingjum hefur henni vegnað vel á meginlendi Evrópu við útþenslu byggðar og garðræktar henni samfara. Þar hefur henni farið fjölgandi og nýjar lendur verið numdar. Nú hefur rauðhumla náð til Íslands, væntanlega með ómeðvitaðri aðstoð okkar manna, og hér á hún eflaust framtíð fyrir sér því hún finnst allt norður til nyrstu sveita Noregs.

Rauðhumla er auðþekkt og ólík þeim þrem humlutegundum sem fyrir voru á landinu, þar sem hún er ekki gul- og svartröndótt (sjá mynd). Ef  menn verða rauðhumlu varir í görðum sínum í sumar þá vinsamlegast tilkynnið það til Náttúrufræðistofnunar.

Frekari fróðleik um rauðhumlu er að finna á pödduvef Náttúrufræðistofnunar.