Fiðrildavöktun bætist liðsauki

Verkefninu er lýst annars staðar á vef Náttúrufræðistofnunar. Nú á tímum loftslagsbreytinga, breytinga á búskaparháttum, stórvirkrar mannvirkjagerðar og afdrifaríkra inngripa af náttúrunnar hendi er mikilvægt að fylgjast með því hvernig lífríkið bregst við. Hraðfara gróðurbreytingar sem tengjast framanskráðu eiga sér stað með óhjákvæmilegum áhrifum á dýrin, jafnt stór sem smá.

Margt er að gerast í náttúru landsins um þessar mundirnar. Breytinga verður vart á stofnum margra dýrategunda og nýjar tegundir berast til landsins, bæði af mannavöldum og sjálfsdáðum, og nema land. Okkur ber skylda til að fylgjast grannt með því sem er að gerast. Það er ekki eingöngu fræðilega áhugavert heldur einnig mikilvægt því ekki eru allar breytingarnar til góðs, eins og dæmi sýna.

Sem fulltrúar smádýra henta fiðrildi einkar vel til vöktunar, því auðvelt er að fylgjast með þeim með stöðluðum rannsóknatækjum. Sýnatakan fer fram með ljósgildrum og er á flestra færi, en úrvinnsla sýnanna krefst þekkingar og reynslu. Fölmargar tegundir fiðrilda koma við sögu í gildrusýnunum og ekki allar auðgreindar. Það léttir ekki leikinn þegar fiðrildin eldast og hreistur þeirra tekur að mást af vængjum. Þá hverfa gjarnan hefðbundin útlitseinkenni og grípa þarf til annarra ráða til að komast að niðurstöðum um tegundir.

Undanfarið hafa starfsmenn þriggja náttúrustofa nýtt sér þá góðu aðstöðu sem Náttúrufræðistofnun Íslands hefur upp á að bjóða á nýjum stað á Urriðaholti í Garðabæ, undir handleiðslu Erlings Ólafssonar skordýrafræðings stofnunarinnar. Þeir komu frá Náttúrustofum Norðausturlands, Austurlands og Vestfjarða. Á vegum þessara stofa hefur sýnataka hafist á sjö stöðum. Gefst nú tækifæri til að skoða gang mála vítt og breytt um landið. Þegar er sitthvað áhugavert tekið að líta dagsins ljós.

Náttúrufræðistofnun fagnar samvinnu við systurstofnanirnar á þessu sviði rannsókna. Það er ekki spurning að verkefni af þessu tagi henta afar vel til að tengja starfsemi stofnanna sem um leið styrkir stöðu þeirra hverrar í sínum landshluta.



Búrfellshraun. ©Guðmundur Kjartansson



Búrfellshraun. ©Guðmundur Kjartansson

Fiðrildi greind á Náttúrufræðistofnun Íslands. Cristian Gallo frá Náttúrustofu Vestfjarða, Erlín E. Jóhannsdóttir frá Náttúrustofu Austurlands og Erling Ólafsson, Náttúrufræðistofnun Íslands. Ljósm. Kjartan Birgisson.

Stráygla er nýr landnemi sem kom fram í verkefninu og grannt fylgst með fjölgun hennar og dreifingu. Ljósm. Erling Ólafsson.