Náttúrufræðistofnun tekur formlega til starfa í Urriðaholti

Nýja húsið er sérstaklega hannað fyrir starfsemi Náttúrufræðistofnunar. Það er 3.500 fermetrar að stærð og nýjustu tækni er beitt til að tryggja varðveislu náttúrugripa, sem margir eru mjög verðmætir og sjaldgæfir.

Bygging hússins hófst í október 2009. Arkís hannaði húsið og Ístak var aðalverktaki við bygginguna. Glerhjúpur setur sterkan svip á bygginguna og er helsta einkenni hennar. Auk þess myndar hann veðurhlíf og tryggir betur virkni náttúrulegrar loftræstingar, jafnvel í verstu veðrum.


Nýtt hús Náttúrufræðistofnunar Íslands í Urriðaholti í Garðabæ. Ljósm. Vigfús Birgisson.

Hús Náttúrufræðistofnunar er eitt af fyrstu húsum hér á landi til að fá alþjóðlegu BREEAM umhverfisvottunina. Vottunin tekur til þeirra þátta byggingarinnar sem lágmarka neikvæð umhverfisáhrif hennar og stuðla að sjálfbærni.

Nýtt húsnæði Náttúrufræðistofnunar Íslands í Urriðaholti gjörbreytir öllu starfsumhverfi stofnunarinnar og bætir mjög aðstöðu til rannsókna, fræðslu og varðveislu gripa. Ekki síst skiptir miklu máli að umfangsmikil og verðmæt gripasöfn stofnunarinnar komast loks í viðunandi húsnæði.

Náttúrufræðistofnun Íslands tekur til starfa í Urriðaholti í Garðabæ - fréttatilkynning (pdf)