Sveppabókin Íslenskir sveppir og sveppafræði eftir Helga Hallgrímsson náttúrufræðing á Egilsstöðum er komin út hjá bókaforlaginu Skruddu


Forsíða bókarinnar. Skrudda gefur bókina út.

Það er einkar vel við hæfi að bók um íslenska sveppi komi út á ári tileinkuðu fjölbreytileika lífsins því sveppir eru bæði margir og afar fjölbreyttir. Bókin er mikið verk, 632 bls., sem er ætlað til þess að fræða unga jafnt sem aldna um svepparíkið og fungu Íslands. Stærð bókarinnar er svipuð og margra annarra sveppabóka og er hún frekar meðfærileg. Myndirnar koma líka vel út og er sérstaklega gaman að sjá fallegar myndir af smásveppum.

Bókin hentar öllum og hana geta foreldrar, leikskólakennarar og grunnskólakennarar dregið fram þegar þeir skoða náttúruna með börnum. Hún hentar einnig við kennslu í skógfræði og líffræði á háskólastigi sem og til þess að svala forvitni þeirra sem fyrir einskæra tilviljun rekast á einhver dularfull sveppaldin. Og þeir sem hafa safnað matsveppum og verið á ferð um skóga í leit að kóngssvepp eða kantarellu fá nú upplýsingar um alla hina sveppina sem á vegi þeirra verða.

Í bókinni miðlar Helgi upplýsingum um íslenska sveppi sem hann hefur safnað saman um ævina til þeirra sem á eftir fara. Þar sést líka hvað á eftir að skoða betur. Funga Íslands á margt sameiginlegt með fungu hálendis Evrópu sem og fungu svæðisins sem nær því ekki að vera heimskautasvæði en liggur að því og bókin því innlegg í þekkingu á fjallsæknum og norðlægum sveppum.


Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir, umsjónarmaður sveppasafns Náttúrufræðistofnunar, gluggar í bókina. Ljósm. Ingiríður Halldórsdóttir.

Til þess að geta rætt um sveppi á íslensku þarf að finna nothæf orð yfir ansi margt sem engin orð hafa verið til um – þar til nú með útgáfu bókarinnar. Í bókinni eru kynnt til sögunnar íðorð og íslensk tegundanöfn á fjöldann allan af tegundum. Framtíðin mun síðan skera úr um hvað lifir í málinu og hvað ekki.

Sveppasafn Náttúrufræðistofnunar Íslands geymir mikið af þeim sýnum sem fjallað er um í bókinni ásamt vinnubók Helga þar sem skráðar eru lýsingar hans á sýnunum sem og ljósmyndir hans af þeim. Umsjónarmaður sveppasafnsins, Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir, ásamt öðru starfsfólki Náttúrufræðistofnunar fagnar útkomu Sveppabókarinnar og hvetur alla til þess að lesa um sveppi og nota þau tækifæri sem gefast til þess að svipast um í svepparíkinu. Náttúrufræðistofnun óskar Helga Hallgrímssyni til hamingju með bókina og útgefendunum fyrir að koma öllu þessu í skipulagt form.