Yfirlit frjómælinga sumarið 2010

Reykjavík

Í Reykjavík hafa aldrei áður mælst jafnmörg frjókorn á einu sumri eða ríflega 7000. Óvenjumikið var um birkifrjó og grasfrjó þó svo að fleiri hafi mælst áður. Þannig reyndust birkifrjó fleiri vorið 2006 en í ár en það vor bárust hingað með háloftavindum úr austri fjölmörg trjáfrjó, einkum þó frá birki. Fyrsta árið sem frjómælingar fóru fram í Reykjavík var 1988 og það sumar urðu grasfrjó nokkru fleiri en í ár. 1988 var það ágúst sem reyndist aðalgrasmánuðurinn en í ár var það júlí. Birkifrjóin urðu fjórfalt fleiri í ár en í meðalári og grasfrjóin tvöfalt fleiri. Asparfrjóin voru einnig tvöfalt fleiri en í meðalári en hafa nokkrum sinnum verið fleiri en í ár. Frjókorn súru, þ.e. túnsúru, hundasúru og njóla, voru hins vegar nokkru færri en í meðalári. Frjókorn voru samfellt í lofti þ.e. eitt eða fleiri frjó mældust hvern dag frá 6. maí til ágústloka sem er áþekkt undanförnum árum. Sumarið var eitt það hlýjasta, sólskinsstundir yfir meðallagi og þurrt framan af. Veðráttan var því hagstæð frjódreifingu syðra. Fjöldi frjókorna í rúmmetra lofts hvern einstakan dag var að meðaltali 46, hæst fór frjótalan í 820 þann 17. júlí. Þann dag voru grasfrjó í hámarki. Frjótala fór 14 sinnum yfir 100, fjórum sinnum í maí þegar birkið var í hámarki, einu sinni í júní og ágúst og átta sinnum í júlí en á þeim tíma voru grasfrjó í algleymingi.

Frekari upplýsingar um frjómælingar í Reykjavík.

Akureyri

Á Akureyri reyndist sumarið í tæpu meðalári með heildarfrjómagn ríflega 2500 í rúmmetra lofts. Birkifrjó og asparfrjó voru yfir meðallagi en bæði gras- og súrufrjó undir meðallagi. Frjókorn voru í lofti nær alla daga frá 1. maí til 25. ágúst. Frjótalan fór yfir 100 fjórum sinnum sumarið 2010, þrisvar á meðan birkið var í blóma í júní og einu sinni í ágúst þegar grasfrjó voru í hámarki. Að jafnaði fóru 14,9 frjókorn um hvern rúmmetra andrúmslofts á sólarhring á Akureyri. Mælingum var hætt vegna bilunar í loftdælu um miðjan september. Er það nokkru fyrr en venjulega. Tíu daga kuldakafli með næturfrosti í framhaldi bilunarinnar gerir það að verkum að óhætt er að fullyrða að bilunin hafi lítil áhrif haft á heildarniðurstöður sumarsins. Júní var aðalfrjómánuður fyrir norðan en þá blómgaðist birkið þar. Júlí var frjóríkastur syðra þegar fjölmargar grastegundir voru í blóma og dreifðu frjókornum. Aðalgrasmánuður nyrðra var hins vegar ágúst.

Frekari upplýsingar um frjómælingar á Akureyri.