Vinnustofa í fjarkönnun

Martha Raynolds hefur m.a. tekið þátt í svokölluðuuðu CAVM-verkefni, sem er alþjóðlegt átak sem miðar að því að kortleggja gróður norðurslóða og þætti sem móta hann. Kortlagningin er byggð á gervitunglagögnum (AVHRR) og greiningu þeirra. Martha kom m.a. inn á verkefnið í erindi sínu á Hrafnaþingi hinn 6. apríl s.l.

Vinnustofan var vel sótt en auk starfsmanna Náttúrufræðistofnunar tóku starfsmenn Landgræðslu ríkisins, Landmælinga Íslands, Náttúrustofu Norðausturlands, Alta ehf. og stúdentar við Háskóla Íslands þátt í henni. Á vinnustofunni kynnti Martha sögu og grunnfræði fjarkönnunar, lýsti gerðum gervitungla, gögnum frá þeim og aðgengi á veraldarvefnum. Þá var farið yfir helstu forrit sem koma að notum við greiningu gagnanna og hvernig vinnsla þeirra fer fram. Síðan var farið yfir hvernig beita má fjarkönnun við greiningu á gróðri,  jarðfræði, vatni, hafís, lofthjúpi jarðar o.fl. þáttum. Að lokum var farið yfir möguleika á greiningu og kortlagningu gróðurs með fjarkönnun og sýnd var prufuflokkun af gróðri á Íslandi sem Martha vinnur að út frá svokölluðum MODIS-gögnum.

Það var einróma álit þeirra er tóku þátt í vinnustofunni að hún hefði tekist vel og verið mjög lærdómsrík. Þrátt fyrir að góð gervitunglagögn séu til af Íslandi hefur fremur lítil áhersla verið lögð á uppbyggingu þekkingar og færni við greiningu og notkun slíkra gagna hér á landi, t.d. við flokkun og kortlagningu yfirborðs lands, en ljóst er að möguleikar eru miklir og framfarir örar á sviðinu.



Rjúpnakarri. Ljósm. Daníel Bergmann.



Rjúpnakarri. Ljósm. Daníel Bergmann.

Martha Raynolds (t.v.) fer yfir fræðin á vinnustofu í fjarkönnun á Náttúrufræðistofnun Íslands. ©KB Þátttakendur á vinnustofu í fjarkönnun sem haldin var á Náttúrufræðistofnun Íslands. ©KB