Áhrif öskufalls á lífríki í Vestur-Skaftafellssýslu eftir Grímsvatnagos

06.06.2011
Birkihrísla við Lómagnúp
Mynd: Sigurður H. Magnússon
Birkihrísla í öskuskafli í skorningi austan við Lómagnúp, 31. maí 2011.

Dagana 30.–31. maí 2011 fóru tveir sérfræðingar frá Náttúrufræðistofnun Íslands, þeir Erling Ólafsson skordýrafræðingur og Sigurður H. Magnússon gróðurvistfræðingur, í skoðunarferð um öskusvæðið í Vestur-Skaftafellssýslu. Tilgangurinn var að kanna öskufall eftir nýafstaðið Grímsvatnagos og huga að gróðri, smádýralífi og fuglalífi á öskusvæðinu.

Farið var um svæðið frá Eldhrauni við Kúðafljót í vestri og austur fyrir Lómagnúp. Einnig var farið upp á heiðarnar norðvestan við Kirkjubæjarklaustur og upp fyrir efstu bæi í Fljótshverfi og að Sléttabóli sunnan við Brunahraun. Skoðaðir voru sérstaklega 13 staðir með um 10 km millibili en um 5 km voru á milli staða þar sem öskulagið var þykkast. Öskusýni voru tekin á 11 stöðum þar sem mest var af ösku. Öskuþykkt var einnig mæld eða metin á öllum stöðunum.

Vestast í Eldhrauni hefur öskufall verið mjög lítið en öskuþykkt eykst þegar austar dregur og er mest á svæði frá Hörgslandi á Síðu og austur að Lómagnúpi. Þar sem askan er mest er nánast alls staðar svarðfylli af ösku og sums staðar allþykkir öskuskaflar í skjóli. Langþykkust er askan í Fljótshverfi og austast í Brunahrauni. Þar er hún víða 5–18 cm þykk og dæmi voru um öskuskafla þykkari en 20 cm.

Þrátt fyrir verulegt öskufall má ætla að gróður muni víðast hvar á láglendi standast þetta áfall. Fer það þó mjög eftir tíðarfari á komandi vikum. Neikvæð áhrif á smádýr geta orðið veruleg, einkum á jarðvegsdýr af ýmsu tagi og smádýr sem byggja afkomu sína á víði (ekki síst reklum) og birkilaufum. Lítið varð vart við varpatferli fugla, söng eða önnur merki um gott gengi þeirra. Það skal þó haft í huga að kalt var í veðri, mest um 6°C, og kann það að hafa ráðið miklu um það hve fuglalíf var dauft.