Til hamingju með daginn!


Ragnar Axelsson, RAX, með fjölmiðlaverðlaunin 2011 og umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir. Ljósm. Kjartan Birgisson

Umhverfisráðuneytið bauð til hátíðarsamkomu í Búrfellshrauni en vegna veðurs var samkoman flutt inn í hús Náttúrufræðistofnunar Íslands í Urriðaholti. Umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, og afmælisbarn dagsins, Ómar Ragnarsson, héldu hátíðaræður í tilefni dagsins. Þá var tilkynnt hver hlyti fjölmiðlaverðlaun umhverfisráðherra í ár og var það Ragnar Axelsson, RAX,  ljósmyndari Morgunblaðsins, sem hlaut þau. Verðlaunagripurinn, sem hannaður er af Finni Arnari Arnarsyni, er krækiber en á því er lítið Ísland staðsett á berinu á sama stað og Ísland er staðsett á jarðarkúlunni. Kallast verkið Jarðarberið.

Á milli atriða söng kór Menntaskólans við Hamrahlíð. Samkomunni var útvarpað beint á Rás 1 í þættinum Samfélagið í nærmynd og má hlusta á þáttinn á vef Ríkisútvarpsins.

Náttúrufræðistofnun óskar RAX innilega til hamingju með verðlaunin en lesa má frekar um fjölmiðlaverðlaunin og verðlaunagripinn á heimasíðu Umhverfisráðuneytisins.

 

kór, dagur íslenskrar náttúru  göngustígur, Garðabær, eldri borgarar, dagur íslenskrar náttúru 
Kór Menntaskólans við Hamrahlíð tekur lagið undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur. Ljósm. Kjartan Birgisson. Eldri borgarar í Garðabæ ásamt bæjarstjóra og bæjarverkfræðingi leggja af stað í göngu frá Garðatorgi að húsi Náttúrufræðistofnunar Íslands. Ljósm. Erla Bil

 

Til stóð að Náttúrufræðistofnun Íslands byði upp á hádegisgöngu í tilefni dagsins en vegna veðurs var ákveðið að halda dagskránni innandyra þar sem Sigmundur Einarsson jarðfræðingur hélt erindi um Búrfell og Búrfellshraun.

Umhverfisnefnd Garðabæjar hélt upp á daginn með því að opna og kynna nýja gönguleið um Garðahraun sem liggur frá Flatahverfi og tengist upp í Urriðaholt og Heiðmörk. Efnt var til göngu frá Garðatorgi að húsi Náttúrufræðistofnunar.