Efnistaka og efnistökumöguleikar í Eyjafirði

03.10.2011

Töluverðir framtíðarmöguleikar eru á töku byggingarefnis á Eyjafjarðarsvæðinu. Þá er efnistaka hugsanleg á sjávarbotni í firðinum en frekari jarðfræðirannsóknir eru nauðsynlegar áður en hægt er að skera úr um hvort þeir möguleikar séu raunhæfir. Þetta kemur fram í nýlegri skýrslu Náttúrufræðistofnunar um efnisnám og efnistökumöguleika á Eyjarfjarðarsvæðinu sem unnin var fyrir Samvinnunefnd um Svæðisskipulag Eyjafjarðar. Í skýrslunni er yfirlit um helstu efnistökumöguleika í sveitarfélögum á svæðinu, rætt um gerð og gæði efnis í hinum ýmsu jarðmyndunum og bent á þá þætti sem takmarkað gætu efnisnám.

Byggingarefnisnáma Dalvíkurbyggðar í Hrísahöfða í Svarfaðardal. Ljósm. Halldór G. Pétursson

Byggingarefni á Eyjafjarðar­svæðinu er aðallega unnið úr þrennskonar jarðmyndunum: Í fyrsta lagi er efni unnið úr malarhjöllum frá síðjökultíma en þeir eru yfirleitt óshólmar fornra jökulfljóta sem mynduðust þar sem jöklar gengu í sjó við hærri sjávarstöðu í lok ísaldar. Efnisvinnsla í malarhjöllum er ekki sjálfbær því þeir endurnýjast ekki við þær aðstæður sem ríkja í dag. Í öðru lagi er efni unnið úr áreyrum stærstu vatnsfalla á svæðinu en þær eru framburður vatnsfalla á nútíma eða síðan jöklar hurfu í lok ísaldar. Efnisvinnsla í áreyrum telst sjálfbær því þær endurnýjast að hluta, reyndar oft á mjög löngum tíma. Við efnistöku úr áreyrum verður að taka tillit til tveggja vatnsverndarsvæða, í Hörgárdal og Svarfaðardal. Einnig þarf að gæta að því að malareyrar umhverfis árfarvegi eru mikilvægar seiðauppeldis­stöðvar. Mælt er með að efnistaka úr áreyrum sé ekki stunduð án undanfarandi lífríkisrann­sókna og hún sé samkvæmt ráðgjöf fiskifræðinga. Í þriðja lagi er grjótnám á nokkrum stöðum í nokkurra milljón ára gömlum berggrunns­myndunum og er sú efnisvinnsla ekki sjálfbær. 

Í Dalvíkurbyggð, Hörgársveit, Eyjafjarðar­sveit og Grýtubakkahreppi eru miklir efnistökumöguleikar og þar eru stórar námur sem koma til með að endast í töluverðan tíma. Í þremur sveitarfélögum, Fjallabyggð, Akureyri og Svalbarðsstrandarhreppi eru litlir efnistöku­möguleikar eða námur þegar fullnýttar. Tvö síðastnefndu sveitarfélögin eru það vel í sveit sett að stutt er að sækja byggingarefni í önnur sveitarfélög þar sem miklir námumöguleikar eru. Í Fjallabyggð er efnisnám þegar hafið á sjávarbotni í Siglufirði. 

Lesa má skýrsluna í heild sinni á vef Náttúrufræðistofnunar.