Frjókornin þjófstarta

Þann 26. febrúar var kínverskt elri, Alnus trabeculosa, komið með blóm, hangandi karlrekla, í Grasagarðinum í Reykjavík. Elri, öðru nafni ölur, lat. Alnus, er af sömu ætt og birki. Elrifrjó geta kallað fram ofnæmiseinkenni hjá þeim sem þegar eru komin með ofnæmi fyrir birkifrjóum. Frjókorn elris eru staðbundin við næsta nágrenni vaxtarstaðar trjánna á meðan lofthiti er lágur en þau dreifast vel um leið og hiti fer yfir 6°C. Enn sem komið er eru elritré ekki algeng í görðum Reykvíkinga en þeim fer fjölgandi, nokkuð sem e.t.v. þyrfti að endurskoða og jafnvel sporna við, ef borgin á að vera fyrir alla – líka þá sem haldnir eru frjónæmi.

Elrið blómstrar áður en tréð laufgast. Fyrir þá sem vilja forðast elri þá er auðveldast að þekkja trén svona snemma árs á kúlulaga kvenreklum (gildir um rauðelri) frá sl. hausti, sem enn hanga á smástilkum og geta minnt á köngla.

Á Íslandi hefjast frjómælingar í apríl þannig að við sem mælum frjókorn í lofti missum oftast af frjókornum elris, fáum reyndar lítið eitt af elrifrjóum í maí þegar kjarrölur, Alnus viridis, lifnar við eftir vetrardvala.

Nágrannalönd okkar Danmörk, Noregur og Svíþjóð eru farin að senda út tilkynningar um frjótölur, ásamt öðrum löndum Evrópu. Þeir sem ætla vestur um haf geta skoðað ástandið í BNA á vefsíðu AAAA&I (upp kemur kort og síðan er smellt á viðkomandi fylki).