Steingervingarannsóknir fá byr undir báða vængi


Steingervingafræðingarnir Torsten Wappler og Friðgeir Grímsson að störfum á Náttúrufræðistofnun Íslands. Ljósm. Kjartan Birgisson.

Við rannsóknirnar fær Friðgeir í lið með sér öflugan hóp vísindamanna frá Danmörku, Færeyjum, Svíþjóð, Austurríki og Bandaríkjunum. Ætlunin er að safna steingervingum á vesturströnd Grænlands yfir sumartímann og þar verður rannsóknarteymið selflutt á milli jarðlagaopna með þyrlu. Vonast Friðgeir og samstarfsmenn hans til að með rannsóknunum verði mögulegt að rekja uppruna og þróun margra viðarkenndra plöntuhópa sem í dag einkenna heittempruðu og tempruðu laufskógarbeltin á norðurhveli jarðar. Einnig er talið að niðurstöður geti varpað ljósi á hvaða gróðurfarsbreytingum megi búast við á norðurslóðum samfara hlýnandi loftslagi.

Friðgeir Grímsson lauk doktorsprófi í steingervingafræði frá Háskóla Íslands árið 2007, en við námið rannsakaði hann steingervinga úr vísindasafni Náttúrufræðistofnunar og hafði jafnframt aðstöðu til rannsókna hjá stofnuninni. Doktorsritgerð Friðgeirs fjallar um gróðursamfélög á Íslandi frá míósen tímabilinu, þ.e. uppruna og þróun 15 til 6 milljón ára steingerðra gróðursamfélaga frá Vestfjörðum og Vesturlandi.

Árið 2011 kom út bókin Late Cainozoic Floras of Iceland sem fjallar um niðurstöður rannsókna á plöntusteingervingum í íslenskum jarðlögum, kortlagningu þeirra og aldursgreiningar. Friðgeir er einn höfunda bókarinnar, hann nýtti steingervingasafn Náttúrufræðistofnunar til rannsóknanna og var jafnframt starfsmaður stofnunarinnar um tíma. Við rannsóknir sínar hefur Friðgeir bætt á annað þúsund plöntusteingervingum í safn Náttúrufræðistofnunar. Segja má að bókin hafi lagt grunn að styrknum sem austurríski rannsóknasjóðurinn hefur nú veitt Friðgeiri.

Friðgeir er staddur hér á landi þessa dagana ásamt samstarfsfélaga sínum, steingervingafræðingnum dr. Torsten Wappler frá Bonn í Þýskalandi, en þeir rannsaka steingerð skordýr og för eftir skordýr á plöntusteingervingum í steingervingasafni Náttúrufræðistofnunar.


Steingerð fluga úr 9–8 milljón ára gömlum setlögum úr Mókollsdal, Kollafirði. Ljósm. Torsten Wappler.

 


Steingert birkilaufblað með fæðuförum eftir mismunandi skordýr. Laufblaðið er 9–8 milljón ára gamalt úr Mókollsdal, Kollafirði. Ljósm. Friðgeir Grímsson.