Rjúpnaveiði 2012

Umhverfisráðherra hefur fallist á ráðleggingar Náttúrufræðistofnunar um ráðlagða rjúpnaveiði árið 2012 upp á 34.000 fugla. Þetta eru ríflega helmingi færri fuglar en árið 2010, sem skýrist af verri stöðu rjúpnastofnsins. Með því að deila ráðlagðri veiði á fjölda skráðra rjúpnaveiðimanna undanfarin ár má þannig gera ráð fyrir um 6 rjúpum á hvern veiðimann.

Fyrirkomulag rjúpnaveiða verður það sama og 2011 og veiði heimiluð í níu daga. Veiðitímabilið dreifist á fjórar helgar með eftirfarandi hætti:

  • Föstudagurinn 26. október til sunnudagsins 28. október.
  • Laugardagurinn 3. nóvember og sunnudagurinn 4. nóvember.
  • Laugardagurinn 17. nóvember og sunnudagurinn 18. nóvember.
  • Laugardagurinn 24. nóvember og sunnudagurinn 25. nóvember.

Náttúrufræðistofnun áætlar að veiðistofn rjúpunnar, og þar með veiðiþol stofnsins, hafi minnkað um ríflega helming frá árinu 2010, líkt og sjá má í meðfylgjandi töflu:

Ár  Áætlaður veiðistofn Veiðitillögur NÍ
2009  810.000  71.000
2010  850.000  75.000
2011  350.000  31.000
2012  390.000  34.000

Stærð rjúpnastofnsins sveiflast reglubundið og hafa 10 til 12 ár verið á milli hámarksára. Um þessar mundir er stofninn í slíkri niðursveiflu en miðað við fyrri reynslu má búast við að stofninn nái lágmarki á árabilinu 2015 til 2018. Þá benda fyrirliggjandi gögn til þess að veiðar hafi þau áhrif að afföll verði til viðbótar þeim rjúpum sem skotnar eru. Er vonast til að færri veiðidagar og lengri hlé á milli þeirra geti dregið úr slíkum viðbótarafföllum.

Áfram verður sölubann í gildi á rjúpu og rjúpnaafurðum og ákveðið svæði á Suðvesturlandi verður sömuleiðis áfram friðað fyrir veiði.

Frá því að rjúpnaveiðar hófust að nýju árið 2005 hafa rjúpnaveiðimenn verið virkir þátttakendur í að draga úr veiðum á rjúpu í því skyni að vernda stofninn. Ljóst er að á því niðursveiflutímabili sem rjúpnastofninn er í þurfa allir að leggjast á eitt, svo hægt sé að tryggja sjálfbæra nýtingu rjúpnastofnsins. Engar ákvarðanir hafa verið teknar varðandi veiðar á næsta ári.

 

 

Sjá nánar greinargerð Náttúrufræðistofnunar Íslands til umhverfisráðherra.